23.8.2007 | 12:37
Veitum örlán á KIVA - það er einfalt
Í viðskiptakálfi Moggans í dag er fjallað um örlán og dr. Mohammad Yunus sem fékk Nóbelsverðlaun fyrir örlánahugmyndina og útfærslu hennar.
Það er ekkert mál að veita örlán. Maður stofnar reikning á heimasíðunni www.kiva.org og er kominn í gang fyrr en varir. Fulltrúar samtakanna í þróunarlöndum leita uppi fólk sem sem er hæft til þess að taka lán, hver og ein leggur sitt af mörkum til þeirra sem þeir kjósa að lána, allt niður í 25 bandaríkjadali, og lánið er veitt þegar heildartölunni er náð. Síðan er það endurgreitt, dæmigert á 12 til 18 mánuðum. Þetta er stórsniðugt kerfi og virðist alveg öruggt og bara það eitt að lesa um hvað fólk er að fá lánað til er mikil reynsla vesturlandabúa sem hefur allt til alls. Nær ekkert er um það að fólk geti ekki endurgreitt lánin sín. Ég fann aðeins tvö dæmi af þeim þúsundum sem þarna eru á skrá.
Hverjum og einum lánveitanda eru svo sendar upplýsingar reglulega um stöðu lánsins og gang mála hjá lánþega. Ég hvet alla til að kynna sér þetta á www.kiva.org .
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2007 | 15:06
Hver þessara fór ekki til Íraks?
Þessa mynd fann ég hérna.
Utanríkisráðherra Frakka heimsækir Írak | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2007 | 14:23
Hvað er nóg? Hvenær er nóg komið?
Heilsugæsla er dýr. Við státum okkur af góðri heilsugæslu, langlífi og hraustri þjóð. Það gerist ekki af sjálfu sér.
Á undanförnum 20 árum hafa t.d. ADHD-samtökin og mörg önnur félög til stuðnings börnum með taugafræðilegar raskanir barist fyrir auknu fjármagni til BUGL. Þrátt fyrir ýmis fögur orð hefur þó þessi deild alltaf setið á hakanum og ástandið versnað ár frá ári.
Nú kemur ungur og drífandi ráðherra og sýnir að þetta var alltaf hægt, það var bara spurning um forgangsröðun. Auðvitað á að gefa börnum forgang. þau eru framtíðin, til góðs eða ills eftir því hvernig þessi kynslóð heldur á spöðunum.
Gott hjá þér, Guðlaugur. Áfram, Borgarnes!
Eru 150 milljónir nóg? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.8.2007 | 13:11
Dauðaslys og sjálfsvíg
Umræða um sjálfsvíg og tíðni þeirra er alltaf erfið. Gott er að heyra að Finnar hafa fækkað þeim með markvissum aðgerðum og sjálfsagt er hjá Íslendingum að huga að því sama, eitt sjálfsvíg er einu of mikið.
Það leiðir hins vegar hugann að þeim dauðaslysum sem verða í umferðinni. Samkvæmt nýjustu upplýsingum slepptu nær allir þeir, sem dáið hafa í umferðinni í ár, því að nota öryggisbelti. Ekki alls fyrir löngu rakst ég á grein um umferðarslys í Svíþjóð þar sem menn gerðu því skóna að allt að þriðjungur dauðaslysa á vegum úti þar í landi væri í raun sjálfsmorð. Bílstjórar stórra flutningabíla hafa lýst því hvernig bíll á fullri ferð á móti færir sig skyndilega yfir á þeirra vegarhelming og ökumaðurinn brosir jafnvel til þeirra andrána áður en bílarnir skella saman og sá á litla bílnum deyr auðvitað samstundis.
Er rangt að álykta að maður sem ekki gætir sjálfsagðra öryggiskrafna og ekur að auki glæpsamlega hratt og ógætilega sé í raun í sjálfsvígshugleiðingum?
Skyldi einhver úttekt hafa verið gerð á þessu á Íslandi eða er málefnið ef til vill of viðkvæmt til þess?
Færri fremja sjálfsvíg í Finnlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.8.2007 | 22:28
Forréttindi kennarans
Kennsla er bæði göfugt starf og argasta púl, álag, fögnuður og streita og allt þar á milli. En ein mikilvægustu forréttindi kennara eru þau að horfa á eftir unglingunum sínum út í lífið og svo stundum að hitta þá eða heyra af þeim löngu síðar. Það getur verið örstuttur fundur við rætur Snæfellsjökuls, í erlendri flughöfn eða í grillsjoppu í Keflavík, greinarstúfur í tímariti, frétt í blaði eða blogg.
Það síðasta er reyndar tilefni þessarar færslu því ég hef fylgst með henni Þórdísi Tinnu, ljúfri stúlku sem ég kenndi um hríð. Nú er hún orðin fullorðin kona og móðir sem tekst á við illan vágest og baráttan er tvísýn eins og þeir vita sem fylgst hafa með bloggsíðunni hennar. Þegar ég les póstana hennar rekst ég svo í athugasemdunum á hin og þessi nöfn fyrrum nemenda sem vekja minningar og þeir senda jafnvel kveðjur. Fyrir þessi forréttindi þakka ég, þetta hlýjar gömlum kennara um hjartarætur!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2007 | 12:50
Summer Wine no more
Lee var mjög sérstakur listamaður og átti mörg góð lög, Summer Wine er þó að öðrum ólöstuðum eitt það allra besta. Djúp og kæruleysisleg röddin er ógleymanleg.
Hann lýsti því einhverju sinni hve erfitt það hefði verið að mæta heim til Nancyar í fyrsta sinn með nokkur lög sín til að kynna fyrir henni en sat þá ekki Frank gamli þegjandi úti í horni á bak við dagblað og fylgdist vel með öllu sem þar fór fram? Einstaka sinnum kinkaði Frank svo kolli ef hann var sæmilega sáttur við lagið.
Lee bjó um hríð í Svíþjóð en tókst ekki að viðhalda fyrri frægð frá þeirri bækistöð. Hann verður minnst.
Lee Hazlewood látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2007 | 11:41
Nýr vinkill
Það er nýr vinkill á Íraksstríðinu að bandamenn skuli útvega báðum deiluaðilum vopn. Bandamenn neyddust til þess að nýta sér krafta margra manna úr Baath-flokki Saddams vegna þess að þar var fyrir hendi þekking á innviðum ríkisins og stjórnunarkunnátta en nú virðist augljóst að sú aðferð hefur aldeilis komið í bakið á innrásarliðinu.
190.000 skotvopna saknað í Írak | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2007 | 08:46
El Grillo bjór og Lille-Svend
Það var gaman að sjá hann Eyþór á Seyðisfirði kynna nýja bjórinn sinn í sjónvarpinu í gær. Eyþór veit hvað hann syngur í þeim málum en hann leigði okkur hjónum íbúð í Roskilde í tvö ár frá 1978-80 þegar hann vann sem þjónn á fínni stöðum Kaupmannahafnar.
Eyþór leigði líka íbúðina á 2. hæð en þar bjó þjónninn Lille-Svend. Sá var töluvert drykkfelldur en mjög góð sál. Ef maður kom í heimsókn stóð fyrr en varði bjór, snafs og portvín fyrir framan mann. Ef hann mætti okkur með Önnu Lindu, þá 4-5 ára, fékk hann hana lánaða til að fara út í sjoppu og kaupa ís.
Ég vona að salan á El Grillo bjórnum gangi vel.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2007 | 22:08
Verslunar-hvað?
Það er svolítið spaugilegt að sitja hérna í Köben og hlusta á íslenskar sjónvarps- og útvarpsfréttir. Það er engu líkara en að fréttaheimurinn íslenski sé hreinlega að fara á límingunum vegna þess að nokkur þúsund manns ætla að tjalda í roki og rigningu. Og svo er sýndar myndir í beinni útsendingu af hálftómum þjóðvegum. Hér eru tugir ef ekki hundruð þúsunda á ferð og flugi, búa á hótelum, gistiheimilum af öllu tagi og á tjaldstæðum í risastórum hópum en ekki sífellt verið að klifa á ekki-fréttum af þessu, það er hreinlega ekkert fréttnæmt við það að fólk fari í frí.
Mikið væri nú gaman ef fjölmiðlar tækju sig til og hættu þessu verslunarmannahelgarstagli og færu að segja áhugaverða fréttir í þess stað. Af nógu er að taka þótt það detti ekki allt niður í hausinn á þeim frá stóru fréttaveitunum. Og þá er ég ekki að tala um stöðugar auglýsingar fréttastofanna á starfsemi strípidansstaða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2007 | 07:04
Útlendingar & hraðakstur
Væri ekki skynsamlegt að setja upp einhvers konar kerfi með viðvörun við fyrsta hraðakstursbrot ferðamanna hér á landi? Á þessum síðustu tölvutímum getur ekki verið flókið mál að koma upp tölvuskráningarkerfi um það svo þeir sleppi ekki næst, haldi þeir áfram uppteknum hætti.
Þann 4. júlí 1987 var ég á leið með konu og börnum til Lególands á Jótlandi. Veðrið var gott, bíllinn góður, umferð lítil og enginn löggubíll í sjónmáli svo ég ók sem leið lá yfir Sjáland á 140 km hraða, langt yfir 110 km hraðatakmörkunum. Skyndilega ók að hlið mér venjulegur fólksbíll þar sem maður í einkennisskyrtu veifaði STOP-skilti. Bílarnir stönsuðu og til okkar gekk ábúðarfullur laganna vörður. Hann sá sorgar- og skelfingarsvipinn á mér og eiginkonunni og spurði mig um hraðann. Ég játaði náttúrulega allt en reyndi eitthvað að bera í bætifláka með tilvísan til aksturs á þýskum hraðbrautum. Hann fussaði bara yfir þeirri vörn, leit á börnin í aftursætinu og spurði hvort ég hefði ekki hugsað mér að koma þeim heilum heim. Ég játti því og þá sagði hann mér að aka áfram og halda mig við hámarkshraðann, hann myndi láta vita af mér og með mér yrði fylgst.
Síðan hef ég ekki verið stöðvaður fyrir hraðakstur erlendis þrátt fyrir margar ferðir. Há sekt hefði hins vegar rústað ferðasjóði kennararæfilsins og ég kunni svo sannarlega að meta þessa afgreiðslu málsins.
Reyndar vissi lögreglumaðurinn ekki að sorgarsvipinn á okkur hjónum mátti ekki síst rekja til þess að kvöldið áður höfðum við fengið fregnir af andláti tengdaföður míns.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)