Nauðsynlegt að hræra upp

Gott að sjá að 365-menn fá gamlan spunadoktor stjórnarandstöðuflokks í þessa stöðu.

Það er líka ánægjulegt að Sigmundur Ernir haldi áfram að lesa, hann er trúverðugur. 


mbl.is Steingrímur Ólafsson nýr fréttastjóri Stöðvar 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurlegt ástand

43% þjóðarinnar býr við örbirgð, helmingurinn er atvinnulaus og 70% hefur ekki að gang að hreinu vatni. Við þetta býr þjóð í landi þar sem einar mestu olíubirgðir heims eru í jörð.

Og hver er ástæðan að sögn Oxfam? Jú, Stjórn Íraks, SÞ og aðrir sem veita aðstoð hafa einbeitt sér svo að endurreisn innviða hins pólitíska kerfis að almennir borgarar hafa alveg gleymst. 

Þetta er níðangursleg útgáfa af gömlu læknasögunni: ,,Aðgerðin heppnaðist vel en sjúklingurinn dó".  


mbl.is Þriðjungur Íraka í þörf fyrir neyðarhjálp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gary Brooker í Tívolí

Það var gaman að sjá þá félagana Gary Brooker og Georgie Fame með Tivolis Big Band á Plænen í gærkvöldi. Ég hefði reyndar viljað heyra meira í Gary en Fame er auðvitað meiri djassisti. Þetta var hörkufínn bigbanddjass og svæðið troðfullt af fólki en við höfðum pantað borð á Balkonen fyrir 3 mánuðum, sátum í stúkusæti og gerðum vel við okkur í mat og drykk á meðan djassinn dunaði.
Okkur Atla varð báðum tíðhugsað til tónleikanna með Procul Harum í ágúst í fyrra og við borðið okkar þriggja var laus stóll fyrir fjarstaddan vin.


Hilmar J. Hauksson – In memoriam

Procol Harum - konsert - 2006 003
«For you will still be here tomorrow, but your friends may not.»

 Við höfðum alltaf ætlað okkur að verða gamlir saman. Og það var alltaf líf og fjör umhverfis Hilmar. Í MH var hann formaður Listafélagsins og keyrði það áfram af krafti. Barmahlíðin var fastur viðkomustaður og svo var farið til Kalla til að læra það sem hann hafði lært hjá gítarkennaranum. Eða í Bólstaðarhlíðina til Gunnars þar sem hlutirnir gengu ekki alltaf hljóðlega fyrir sig.

Eftir stúdentspróf hélt Hilmar til náms í sjávarlíffræði í Bangor í Wales. Í bréfunum frá honum var þó meira rætt um tónlist og leiklist, siglingar og ferðalög.

Við Heidi fluttum út, Hilmar heimsótti okkur í Hróarskeldu 1980 með Tótu og þótti ekki leiðinlegt á festivalinu sem þá var uppfullt af tónlist af öllu tagi, ekki síst þjóðlögum.

Hrím var stofnað haustið 1981 og með Wilmu lékum við um allt og þvældumst til Grænlands, Skotlands og Norðurlandanna. Spilað var af kappi, t.d. 14 sinnum á einni viku á Glasgow Folk Music Festival. Stundum var viskí hóflega haft um hönd en Hilmar lék ótrauður áfram á gítar sinn, flautu, bouzuki, bassa, hljómborð eða nikku. Ferðin til Christiansø við Borgundarhólm var líklega hápunkturinn á þessum ferðum þótt spilamennska fyrir sjö þjóðhöfðingja í flugskýli í Narsarsuaq hafi líka verið sérstök reynsla. Platan okkar hét Möndlur en nafnið var einstaklega misheppnuð þýðing á orðinu “Nuts”.

Sara kom svo í heiminn og breytti að ýmsu leyti lífssýn Hilmars eins og frumburðir gjarnan gera.

Hilmar hvíldi sig á þjóðlögunum og stofnaði Hvísl. Hann hélt áfram að kenna í Fjölbraut í Breiðholti og spila á vetrum en ferðast og spila á sumrum. Svo kom Salóme til sögunnar og gulldrengurinn Haukur Steinn. Salóme kvaddi óvænt en Hilmar lét ekki deigan síga heldur kastaði sér út í uppeldið. Það er ekki einfalt að vera einstætt foreldri í meira en fullu starfi en hverju fær ekki sá áorkað sem ekki hugsar um hindranir heldur lausnir?

Daglegar annir vinsæls kennara og föður voru miklar og það dró úr þeim tíma sem aflögu var fyrir listina en aldrei var hún lögð á ís.

Svo kom fyrsta höggið og kostaði annað nýrað. Staðbundið meinvarp er ekki endalok alls og Hilmar var bjartsýnn. Það kom þó í ljós að ekki hafði tekist að vinna bug á vágestinum. Lungnaaðgerðin í fyrra var mikið áfall en samt fór Hilmar í siglingu um Eyjahafið. Sumarið var erfitt en við náðum þó að drífa okkur saman til Danmerkur í ágúst að sjá og heyra Procol Harum með sinfóníuhljómsveit og kór. Samt var augljóst að kraftarnir voru farnir að þverra. Nýtt lyf vakti bjartsýni um haustið og Hilmar kenndi á vorönn í FB en í maílok kom lokahöggið. Með hverjum deginum var meira af honum dregið og loks kom svo að ekki varð lengur við neitt ráðið. Síðustu dagarnir voru erfiðir, bæði Hilmari og ástvinum hans sem gáfu honum það eina sem þeir gátu boðið, tíma sinn.

Við ákváðum í haust að fljúga til Billund nú í sumar og heimsækja Bergþóru á Jótlandi en nú eru þau bæði horfin okkur. Við Hilmar höfðum alltaf ætlað okkur að verða gamlir saman en það verður víst ekki úr þessu.

Harmur móður hans Svövu er mikill. Hún kveður ástkæran son sinn og Haukur Steinn og Sara sjá að baki góðum föður. Þau fá, ásamt Moniku, systkinum Hilmars og öðrum ástvinum, mínar innilegustu samúðarkveðjur á þessari kveðjustund. En minningin lifir.


Þetta var nú vitað

Magnús Þorkell Bernharðsson er merkur sérfræðingur í málefnum Austurlanda nær. Í Silfri Egils fyrir nokkrum árum nefndi hann það í umræðum um Íraksstríðið að það væri háð vegna olíu. Ungur hægrimaður sem var með honum í þættinum mótmælti því ákaflega og þótti það fáránleg fullyrðing sérfræðingsins.

Það er ágætt að einhver fulltrúi innrásaraflanna skuli nú þora að segja það sem margir töldu sig vita. Margir bandarískir hermenn halda þó ennþá að með stríðinu sé verið að hefna fyrir árásina á tvíturnana í New York.


mbl.is Ástralar í Írak fyrir olíuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hilmar J. Hauksson er látinn

Hilmar J. Hauksson kennari, tónlistarmaður, sjávarlíffræðingur og lífskúnstner lést á fimmtudaginn. Það er ómögulegt að minnast hans í fáum orðum en eftir 40 ára samfylgd er ég ríkari af minningum en ég hefði verið án hans. Hann var vinur í raun, stóð við orð sín,var ekki eins illa við neitt og leiðindi og dýrkaði ferðalög og samveru við vini sína. Hans verður víða saknað.

Jarðarförin fer fram frá Hallgrímskirkju á mánudaginn 25. júní kl 13.

 


Gangstéttir og aðrar torfærur

Þetta er stundað um allt land, hér í götunni hjá mér eru guttar stöðugt að þenja ónúmeruð torfæruhjól, síðast núna fyrir um 2 tímum.


mbl.is Ók torfæruhjóli á kyrrstæðan bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vélhjólamenn og slys

Nýlega hópuðust vélhjólamenn saman á Hellisheiði til að mótmæla nýju umferðarmannvirki sem ætlað er að hindra slys.

Nú hafa hins vegar á örfáum dögum orðið þrjú alvarleg vélhjólaslys á mönnum sem voru að þverbrjóta öll lög og ganga gegn öllu velsæmi. Ætli það sé ekki að sannast sem margir hafa sagt að vélhjólamönnum stafar minni hætta af umferðarmannvirkjum en meiri af eigin fífldjarfri áhættuhegðun? 


mbl.is Féll af vélhjóli og slasaðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pentagon og hommabomban

Pentagon vann um hríð í fullri alvöru að því að þróa sprengju sem átti að gera óvinahermenn að hommum. Um það má lesa hér. Hefði þetta tekist hefði nú aldeilis orðið fjör á Gay Pride í Bagdad.

Skoðanir - ekki hlutleysi

Michael Moore er auðvitað ekkert hlutlaus áhorfandi. Hann sér samfélag sem honum finnst margt athugavert við og reyndir að lýsa því eins og hann sér það. Hann er oft skarpskyggn en auðvitað getur honum orðið á og stundum sést hann ekki fyrir. Yfirleitt er þó gaman að honum og eitt allra beittasta sjónvarpsefni sem ég hef séð var þegar hann safnaði saman fólki sem hafði misst hafði röddina vegna reykinga, óbeinna eða beinna. Hann stofnaði með þeim kór, æfði jólalög og heimsótti tóbaksfyrirtækin. Það var magnað sjónvarpsefni. 


mbl.is Moore sakar Bandaríkjastjórn um áreitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband