Færsluflokkur: Dægurmál

Þjóðernishrokinn veður uppi

Ég hef rekist á mjög einkennilega kraftbirtingu þjóðernishroka á nokkrum bloggsíðum. Hann kemur fram í því að þegar menn skrifa athugasemdir á bloggsíður útlendinga sem ekki skrifa «fullkomna íslensku» þá læða þeir inn stafsetningar- og málvillum í texta sinn í það sem þeir telja líklega sjálfir vera í háðungarskyni. Það er með ólíkindum að sjá þetta hjá fólki af örþjóð sem þarf mjög oft að gera sig skiljanlegt á erlendum tungumálum.
Þessi málfarsfasismi er öllu vitibornu fólki til háborinnar skammar!

 


Hvað segja lögin?

Ríkisborgararéttur

Skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar á grundvelli 5. gr. a laga um íslenskan ríkisborgararétt.

Búsetuskilyrði:

Almennt skilyrði er að umsækjandi þarf að hafa átt lögheimili hérlendis í sjö ár. Ákveðnar aðstæður geta stytt þann tíma:

Hjúskapur eða staðfest samvist. Umsækjandi, sem er í hjúskap eða staðfestri samvist með íslenskum ríkisborgara, þarf að hafa átt hér lögheimili í þrjú ár frá giftingu/stofnun staðfestrar samvistar. Hinn íslenski maki þarf að hafa haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár þegar kemur að veitingu ríkisborgararéttar.

Sambúð. Umsækjandi, sem býr í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og bæði eru ógift, hafi átt hér lögheimili í fimm ár frá skráningu sambúðarinnar. Hinn íslenski maki þarf að hafa haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár þegar kemur að veitingu ríkisborgararéttar.

Ríkisborgari Norðurlanda. Umsækjandi með ríkisborgararétt í einhverju Norðurlandanna getur fengið íslenskan ríkisborgararétt hafi hann átt lögheimili hérlendis í 4 ár.

Barn íslensks ríkisborgara. Umsækjandi, sem á íslenskan ríkisborgara að öðru foreldri þarf að hafa átt hér lögheimili í tvö ár, hafi hið íslenska foreldri haft ríkisborgararétt að lágmarki í fimm ár.

Flóttamaður. Flóttamaður, sem fullnægir skilgreiningu í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951, hafi átt hér lögheimili sem slíkur í fimm ár.

Umsækjandi sem verið hefur íslenskur ríkisborgari. Umsækjandi, sem hefur verið íslenskur ríkisborgari en hefur gerst erlendur ríkisborgari þarf að hafa átt hér lögheimili í eitt ár.

Reglur þessar miðast við lögheimili og samfellda dvöl hér á landi undangengin ár. Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrði um samfellda dvöl, hafi hún verið rofin allt að einu ári vegna tímabundinnar atvinnu eða af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem vegna veikinda nákomins ættingja, en þó allt að þremur árum vegna náms erlendis. Heildardvalartími umsækjanda hérlendis verður þó að vera að minnsta kosti jafnlangur þeim tíma sem hann verður uppfylla að miðað við þau skilyrði sem liggja til grundvallar umsókninni.

Önnur skilyrði

Umsögn tveggja íslenskra borgara. Umsækjandi sé að áliti tveggja valinkunnra manna starfhæfur og vel kynntur þar sem hann hefur dvalist.

Vottorð frá félagsmálaskrifstofu. Umsækjandi geti framfleytt sér hérlendis með hliðsjón af þeim upplýsingum sem koma fram í umsókn og hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi síðastliðin tvö ár. Fæðingarorlofsgreiðslur og húsaleigubætur teljast ekki vera slíkur styrkur.

Sakavottorð. Umsækjandi hafi ekki sætt varðhalds- eða fangelsisrefsingu eða eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.

Svo mörg voru þau orð. 


mbl.is Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíuhreinsistöðvar og slys

Á National Geographic í kvöld var sýnd afar áhugaverð mynd um sprengingu í olíuhreinsunarstöð BP í Texas í mars 2005. Þar var lýst aðdraganda slyssins og afleiðingum. Stór hópur fólks dó og mun fleiri brunnu og slösuðust illa.

BP byrjaði á því að kenna nokkrum starfsmönnum um sprenginguna en rannsókn leiddi í ljós að þeir voru saklausir og fyrirtækið hefur bæði orðið að greiða þeim og öðrum milljarða dala í skaðabætur.

Það sýndi sig einnig að fjölmörgu var áfátt í öllum fimm olíuhreinsunarstöðvum BP í Bandaríkjunum. Þar í landi er rekin sérstök stofnun til að fylgjast með rekstri svona stöðva.

Hafa menn hér á landi hugleitt kostnaðinn við eftirlit af því tagi? Ég hvet alla áhugamenn um byggingu olíuhreinsunarstöðva á Íslandi að sjá þennan þátt þegar hann verður endursýndur á þessari stöð eða annars staðar. Kannski væri ráð fyrir RUV að ná í hann til sýninga hér heima.


mbl.is Fullyrðingar um mengun frá olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum standast ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En ekki hróflað við vopnalögum

Þrátt fyrir þetta mál og mörg fleiri (12.000 byssumorð á ári) lýsir Bush því yfir, staðfestur sem aldrei fyrr, að ekki skuli hróflað við hinum frjálsu lögum um byssueign.
Hann ætlar sér sem sagt að afvopna hryðjuverkamenn í öllum löndum heims nema sínu eigin. Er að furða þótt forsetanum og stefnu hans sé ekki treyst? 


mbl.is Bush harmi sleginn vegna fjöldamorðanna í tækniskólanum í Virginíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að bjóða þjófum netaðgang

Hakkari nokkur sem kallar sig John P. segist eiga auðvelt með að komast að leyniorðum fólks á grundvelli t.d. upplýsinga á bloggsíðum og annars staðar. Hér eru tíu vinsælustu draumalykilorðin á lista hvers hakkara:

  1. Nafn maka eða gæludýrs, stundum með tölunni 0 eða 1 fyrir aftan (ef krafa er gerð um tölustaf í lykilorðinu).
  2. Fjórar síðustu tölurnar í kennitölunni
  3. 123, 1234 eða 123456
  4. "Lykilord"
  5. Nafn bæjar eða borgar, skóla eða uppáhalds íþróttaliðs
  6. Fæðingardagar, þinn eigin, maka þíns eða barna
  7. "Gud"
  8. "Hleyptumerinn"
  9. "Peningar"
  10. "Astin"

Um fimmtungur allra lykilorða á Netinu er búinn til á þennan hátt og það auðveldar hökkurum starfið. Ef maður býr hins vegar til átta stafa lykilorð með blöndu af há- og lágstöfum og tölustöfum er það nær óleysanlegt (nema kannski með aðstoð njósnaforrits). 


Hvernig lit eru augun í Geir?

Egill ræddi við frammákonur jafnaðarmanna frá Svíþjóð og Danmörku í ágætis viðtali í Silfrinu í dag. Hann lauk viðtalinu með því að að minnast á augnlit þeirra. Þetta er svolítil óvænt innslag sem hann mætti vel gera að föstum lið, svona til að undirstrika mannlega þáttinn hjá viðmælendum sínum. Hvernig eru augun í Geir Hilmari á litinn? Eru þau ekki örugglega blá? 


Vonnegut fallinn frá

Kurt Vonnegut var einstakur rithöfundur og skrifaði efni sem vakti athygli lesandans. Það var sama hvort hann var að lýsa reynslu sinni af loftárásunum í Dresden í Sláturhúsi 5 eða Harmóníum-verunum á Merkúr sem lifðu á titringi jarðskorpunnar og gengu af göflunum þegar þær skynjuðu tónlist, hugarflugið var ótakmarkað, villt og frumlegt. Mother Night er hans besta bók en flest sem hann skrifaði er þess virði að lesa það.
Nú er Vonnegut hættur að skrifa en verkin lifa manninn.


mbl.is Kurt Vonnegut látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland og Kasakstan

Ein af allra best sóttu myndum ársins er myndin um Borat, fréttamanninn ruglaða sem í orði kveðnu hæðist að Kasakstan og miklar bandaríska lifnaðarhætti. Þá geta Íslendingar hlegið dátt.

Borat er þó í raun alls ekki að hæðast að Kasakstan heldur að draga fram þversagnir, hræsni og yfirdrepsskap í Bandaríkjunum (og hafði áður gert það sama á Englandi).

Þessi grein Uwes E. Reinhardts er gagnrýni af sama meiði og gagnrýni Borats en nú bregður svo við að Íslendingum er ekki skemmt, ekki frekar en Kasakstönum var skemmt yfir Borat. Viðbrögðin á mörgum bloggsíðum hér benda a.m.k. til að svo sé.

Þetta er beitt háðsádeila á stríðssjúka klerkastjórnina í Washington og þeir sem hingað til hafa stutt hana verða að bíta í það súra epli að í þessari grein er sýnt fram á hve fáránleg hún er í raun.

 

 


mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sam - Samantha - Charles

Sam-SamanthaÍ gærkvöldi var sýnd alveg fáránleg heimildamynd á NRK1, Jeg vil bli mann igjen. Þar er sagt frá Írakanum Sam Hashimi sem settist að í Bretlandi, auðgaðist á viðskiptum og bauð m.a. í Sheffield United. Boðið fór út um  þúfur, hann tapaði miklu fé og konan fór frá honum svo hann gekk til sálfræðings sem sannfærði hann um að skipta um kyn!
Sam lifði sem Samantha (nöfnin hljóma eins og lag með Cliff Richard) um árabil en græddist svo fé á ný og þá lét hann breyta sér í karl. Limurinn er að vísu upprúlluð pylsa úr húð sem dælt er lofti í svo hann starfi rétt en þessi saga tekur öllum skáldskap fram.
Ég geri mér eiginlega ekki alveg grein fyrir hver boðskapurinn er... 


Gróðurhúsaáhrifin og helför gyðinga

Nær því sameinaður vísindaheimur jarðar hefur leitt að því sannfærandi rök og komist að þeirri niðurstöðu að hækkandi hita á jörðinni megi ekki síst rekja til áhrifa manna á umhverfi sitt, þá ekki síst til aukins útblásturs á CO2. Auðvitað eru fjölmargar aðrar breytur í myndinni því rannsóknum fleytir fram og nýjar upplýsingar og niðurstöður koma fram nær daglega en um þetta er vísindaheimurinn engu að síður nær fullkomlega (90%) sammála.

Þannig samkomulag er hvorki sjálfsagt né algengt því það er eðli vísinda að erfitt er að sanna nokkurn skapaðan hlut, aðeins er hægt að leiða líkur að honum. Þyngdarlögmálið verður t.d. aldrei sannað. Við þetta bætast svo pólitískir hagsmunir af öllu tagi sem flækja öll mál sem varða hagsmuni, bæði ímyndaða og áþreifanlega og til bæði langs sem skamms tíma litið.

En hér á landi og víðar eru þó til einstaklingar sem segja þetta allt saman óráðshjal, «vita» að verið er að blekkja vísvitandi með fræðunum og vísa til tilgáta sem ganga í aðra átt.

Þetta minnir mjög á annað mál, umræðurnar um helför gyðinga í seinna heimsstríði 20. aldar. Flestir sem til þekkja eru nokkuð sammála um að Helförin hafi átti sér stað en það hafa líka risið upp sagnfræðingar sem segja að svo sé alls ekki. Þessir hrópendur í eyðimörkinni eiga það sameiginlegt með fyrrnefndu besservisserunum að velja sér tilgátur og upplýsingar sem falla að hugmyndum sínum, hafna öllu öðru og hanga eins og steinbítar á þóftu á þeirri skoðun að þetta sé allt saman blekking ein.

En hvað gengur þeim til? Hvaða hagsmuni halda þeir sig vera að verja?

Ég óska öllum gleðilegra og friðsamra páska. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband