1.3.2007 | 18:26
Norðurbrú og deiluskipulög
Nú líður manni ekki sérlega vel að vita af syni sínum í nágrenni við Norðurbrú þar sem allt logar í óeirðum vegna Ungdomshuset. Saga þess er í sem stystu máli sú að fyrir aldarfjórðungi gaf borgin húsið samtökum ungmenna til afnota en seldi það svo fríkirkju fyrir 7 árum og nú er verið að rýma það.
Þetta er afar sorglegt dæmi um sambandsleysi yfirvalda og borgara. Ekkert afsakar eignaspjöllin en af þessu verða menn að draga þann lærdóm að búa verður svo um hnútana að fólki finnist ekki svo að sér vegið af yfirvöldum að það fari að reisa víggirðingar á götum úti.
Þessu máli er hvergi nærri lokið og búast má við óeirðum í marga daga, bæði í Danmörku og víðar. Unga fólkið hefur haft nægan tíma til að undirbúa viðbrögð sín og svo mæta auðvitað líka óeirðaseggir á staðinn til þess að fiska í gruggugu vatni.
Hér á landi hefur líka verið deilt um deiliskipulag, og stundum svo að nær væri að kalla fyrirbærið deiluskipulag. Þráseta Bryndísar í Álafosskvosinni er nýjasta dæmið en endaði þó með sáttum að sinni. Mér segir svo hugur um að erfiðara verði að leysa þá deilu sem blasir við í Hafnarfirði þótt atkvæðagreiðslan sé vitaskuld allra góðra gjalda verð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2007 | 23:09
Happy Slapping
Í júní í fyrra skrifaði ég á gamla Ár & síð um þennan nýja ,,leik" Happy Slapping sem er mjög að ryðja sér til rúms í Guðs eigin landi, Bandaríkjunum. Reyndar er útigangsfólk þar víða í stórhættu fyrir ungum ofstopamönnum sem vaða um með kylfur og berja á minnimáttar, oft sjúku og máttförnu fólki.
Nú berast fréttir af því að sama sé uppi á teningnum í Danmörku og kveður reyndar svo rammt að því að yfirvöld ætla að kynna sér málin. Það eru víðar stofnaðar nefndir en á Íslandi.
Og þess er þá væntanlega ekki lengi að bíða að þessi villimennska berist til Íslands. - En bíðum við, bárust ekki fréttir af því um síðustu helgi að fjórir ungir menn í bíl hefðu ætlað að ráðast gegn manni á gangi sem varð svo mikið um að hann tók á rás, lenti í opnum brunni og stórslasaðist. Skyldi þetta vera upphafið að þessari villimennsku hér á landi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2007 | 19:18
Allt er vænt...
Kamelljónið er undarleg skepna. Það getur breytt litum til þess að reyna að falla inn í umhverfið en allir sem koma auga á skepnuna gera sér grein fyrir að þar er kamelljón á ferð.
Hér á Íslandi virðist sem fálkinn hafi tekið að sér þetta hlutverk. Hann setti upp bleikan lit fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor og nú er hann allt í einu orðinn (hægri) grænn.
Fleiri hafa tekið upp grænan lit til þess að reyna að fegra útlitið. Má af því tilefni benda á fjallið sem meðfylgjandi mynd er af en gripið var til þessa ráðs í Kína af eiganda fyrirtækis sem hafði stórskaðað fjall og vildi reyna að bæta fyrir tjónið vegna þess að hann þurfti sjálfur að horfa upp á skaðann daglega.
Því liggur beint við að spyrja: Hvaða fjall verður málað grænt hér í blekkingarskyni? Ármannsfell?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2007 | 09:39
Bréfið alræmda
Illugi hefur komist að þeirri skynsamlegu niðurstöðu sem marga grunaði við yfirlestur að Baugsbréfið fræga (,,Deilt á dóminn") sé skrifað af tveimur höfundum.
Það vantar sem sagt bara tvo svo hægt sé að taka í spil...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2007 | 10:46
Ég sé um hestinn...
Áhugi á hestamennsku liggur oft í fjölskyldum. Nú er fyrrverandi fegurðardrottningin okkar hún Unnur Birna orðin andlit íslenska hestsins í útlöndum og hún er enda með að minnsta kosti jafnfínan makka og umboðsmaðurinn fyrrverandi. Og það er vel viðeigandi að dóttir fylgi í fótspor móður sem líka vakti mikla athygli á íslenska hestinum þótt þar væri andlitið kannski ekki í aðalhlutverki...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.2.2007 | 22:15
David Clayton-Thomas
David er merkilegt nokk frá Kanada og tók við hljómsveitinni af erkiblúsaranum Al Kooper. Blood, Sweat & Tears voru töluvert á skjön við dægurtónlistina undir lok sjöunda áratugarins en lögðu engu að síður grunninn að því sem síðar var kallað djassrokk.
Eftir þetta tímabil í kringum 1970 heyrðist lítið í þeim á alþjóðavettvangi en ástæða þessa innleggs er sú að í kvöld horfði ég á tónleika Davids frá djasshátíð í Montreaux og það er augljóst að hann hefur engu gleymt. Kannski væri ráð að fá hann til landsins með sitt flotta big-band og gospelkór.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2007 | 17:20
Bílatryggingar í Danmörku
Í Danmörku starfar tryggingafyrirtækið GF-Forsikring sem er í eigu þeirra sem við það skipta. Það myndi kosta okkur hjónin að tryggja fjölskyldubílinn okkar þar DKK 4.726 á ári með ábyrgð og kaskó. Hér heima kostar sama trygging þeirra sem mestan afslátt hafa á bilinu 80 til 90 þúsund. En það er ekki allt og sumt. Viðskiptavinir danska fyrirtækisins stóðu sig það vel í umferðinni að iðgjaldið var lækkað um 10% um áramótin 2006 og auk þess fá þeir endurgreiðslu á þessu ári sem nemur um fjórðungi iðgjaldsins.
Þetta kalla ég fyrirtæki sem starfar með hag viðskiptavinanna í huga!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2007 | 13:19
Hugmynd fyrir almenningssamgöngur
Nú er stormur í Danmörku og allt á kafi í snjó. Vegir eru víða meira eða minna ófærir og hjólreiðafólk kemst að sjálfsögðu ekki um. Hvernig er brugðist við? Jú, DSB býður öllum að ferðast ókeypis með S-lestunum í Kaupmannahöfn til þess að létta á vegakerfinu.
Væri ekki ómaksins virði fyrir Strætó að reyna þetta þegar allt er á kafi í snjó hér? Ég þykist viss um að það myndi létta mjög á snjóþungum vegum, mun auðveldara yrði að ryðja götur og minni tími færi í að að fjarlægja illa búna bíla sem þvælast fyrir. Þessi tilraun gæti svo orðið undanfari þess að gera eins og Akureyringar og bjóða öllum ókeypis í strætó.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2007 | 22:25
Byggt til framtíðar?
Stjórnmálamenn mæra stundum hlutverk sitt og mikilvægi þess að vinna með framtíðarhagsmuni í huga. Þeim hættir þó jafnframt til þess að hunsa framtíðarhugmyndir fyrirrennara sinna og jafnvel að vinna beinlínis gegn þeim í skammsýni sinni.
Gott dæmi um þetta er sala Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík. Húsið er auðvitað einstakt að allri smíð en héldu menn virkilega að Heilsuverndarstöðinni hefði verið valinn staður nálægt miðborginni og svo að segja við hlið Landspítalans af hreinni tilviljun? Nei, auðvitað ekki. Að baki lá framsýn og stórbrotin hugmynd um samstarf þótt síðar kæmi reyndar Borgarspítalinn á öðrum stað og ný viðmið.
Skammsýnir baunateljarar ákváðu svo að selja húsið og láta breyta því í viðskiptahúsnæði af einhverju tagi en þó án þess að hafa hugmynd um til hvers það yrði notað. Og nú á að eyðileggja það með viðbyggingu, svipað og gert var við bæði gamla Landsbankahúsið og Útvegsbankahúsið í miðborginni.
Ætli stóreflis hótel á þessum þrönga reit stuðli nú beinlínis að fjölgun bílastæða fyrir þá sem erindi eiga á svæðið? Og hvað segja íbúarnir? Nei, það veit enginn því valdið spyr ekki um það á meðan enginn háttsettur áhrifamaður býr þar í götunni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2007 | 21:34
Grænu kosningabyltingunni í Reykjavík formlega lokið
Nú er það komið í ljós sem margir héldu fram að yfirborðskenndar yfirlýsingar um umhverfiskærleika núverandi borgarstjórnarmeirihluta voru hjómið eitt. Ekki er gripið til neinna aðgerða gegn mikilli loftmengun í borginni heldur þvert á móti stuðlað að sem mestri umferð. Uppi eru áform um að saxa enn meira á græna svæðið í Laugardal og þrengja að skólastofnunum þar með byggingum fjöleignarhúsa.
Hámarki nær þó þetta tómlæti með þrábeiðnum um að kæra ekki einhver mestu umhverfisspjöll sem lengi hafa verið unnið í landi Reykjavíkur, hin æpandi sár í Heiðmörk þar sem beinlínis er hæðst að dugnaði borgarbúa áratugum saman við að reyna rækta nýjan skóg. Eru borgarbúar virkilega sáttir við þessi mjölkisulegu viðbrögð gegn oflæti rudda sem engu eira? Er það virkilega svo að flokkslitur skiptir meiru en tilfinningar borgarbúa og náttúruvernd? Og á meðan er moldinni ausið í bingi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)