8.4.2007 | 16:30
Sam - Samantha - Charles
Í gærkvöldi var sýnd alveg fáránleg heimildamynd á NRK1, Jeg vil bli mann igjen. Þar er sagt frá Írakanum Sam Hashimi sem settist að í Bretlandi, auðgaðist á viðskiptum og bauð m.a. í Sheffield United. Boðið fór út um þúfur, hann tapaði miklu fé og konan fór frá honum svo hann gekk til sálfræðings sem sannfærði hann um að skipta um kyn!
Sam lifði sem Samantha (nöfnin hljóma eins og lag með Cliff Richard) um árabil en græddist svo fé á ný og þá lét hann breyta sér í karl. Limurinn er að vísu upprúlluð pylsa úr húð sem dælt er lofti í svo hann starfi rétt en þessi saga tekur öllum skáldskap fram.
Ég geri mér eiginlega ekki alveg grein fyrir hver boðskapurinn er...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2007 | 10:40
Gróðurhúsaáhrifin og helför gyðinga
Nær því sameinaður vísindaheimur jarðar hefur leitt að því sannfærandi rök og komist að þeirri niðurstöðu að hækkandi hita á jörðinni megi ekki síst rekja til áhrifa manna á umhverfi sitt, þá ekki síst til aukins útblásturs á CO2. Auðvitað eru fjölmargar aðrar breytur í myndinni því rannsóknum fleytir fram og nýjar upplýsingar og niðurstöður koma fram nær daglega en um þetta er vísindaheimurinn engu að síður nær fullkomlega (90%) sammála.
Þannig samkomulag er hvorki sjálfsagt né algengt því það er eðli vísinda að erfitt er að sanna nokkurn skapaðan hlut, aðeins er hægt að leiða líkur að honum. Þyngdarlögmálið verður t.d. aldrei sannað. Við þetta bætast svo pólitískir hagsmunir af öllu tagi sem flækja öll mál sem varða hagsmuni, bæði ímyndaða og áþreifanlega og til bæði langs sem skamms tíma litið.
En hér á landi og víðar eru þó til einstaklingar sem segja þetta allt saman óráðshjal, «vita» að verið er að blekkja vísvitandi með fræðunum og vísa til tilgáta sem ganga í aðra átt.
Þetta minnir mjög á annað mál, umræðurnar um helför gyðinga í seinna heimsstríði 20. aldar. Flestir sem til þekkja eru nokkuð sammála um að Helförin hafi átti sér stað en það hafa líka risið upp sagnfræðingar sem segja að svo sé alls ekki. Þessir hrópendur í eyðimörkinni eiga það sameiginlegt með fyrrnefndu besservisserunum að velja sér tilgátur og upplýsingar sem falla að hugmyndum sínum, hafna öllu öðru og hanga eins og steinbítar á þóftu á þeirri skoðun að þetta sé allt saman blekking ein.
En hvað gengur þeim til? Hvaða hagsmuni halda þeir sig vera að verja?
Ég óska öllum gleðilegra og friðsamra páska.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2007 | 10:28
Meira um gallerí
Hún Heidi skrifaði um daginn vangaveltur um orðið gallerí og aukna notkun þess í alls konar samhengjum. Við fórum að kasta því á milli okkar hvað kæmi næst og þá urðu til eftirfarandi tillögur:
Gallerí tuð = Alþingi
Gallerí brauð = Bakarí
Gallerí stuð = Raftækjaverslun
Gallerí gaul = Fysta árið í söngskólanum
Gallerí sviti = Líkamsræktarstöð
Gallerí húð = Snyrtistofa
Gallerí spartl = Andlitssnyrtistofa
Gallerí skuld = Bankar
Gallerí hikk = Vínbúð
Gallerí görn = Lækningastofa ristilsérfræðings. Mætti líka nota yfir pylsuverksmiðju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2007 | 18:15
Kennslustund í mannasiðum?
Hann er sniðugur hann Ahmadinejad forseti Írans. Honum tókst að nappa 15 breska sjóliða í landhelgi og tók þá að sjálfsögðu til fanga. Nú sleppir hann þeim orðalaust og er þar með að benda þeim Blair og Bush á þá sjálfsögðu staðreynd að auðvitað á að sleppa þeim föngum sem lítið hafa til saka unnið í alþjóðadeilum. Samanber Gvantanamó...
Málið er bara hvort þessir tveir stríðsherrar skilja vísbendinguna en í Gvantanamó sitja t.d. 4 farþegar úr leigubíl sem stöðvaður var af tilviljun. Þeir höfðu ekkert til saka unnið. Bílstjórinn var hins vegar pyndaður í hel á viku en í skotti bílsins hafði fundist hluti úr heimilistæki.
Eitthvað hefði alþjóðasamfélagið sagt ef einn bresku sjóliðanna hefði verið pyntaður í hel en það er víst ekki sama, séra Jón og Jón imam.
![]() |
Blair segist engan kala bera til Írana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2007 | 21:44
Huntingtonssjúkdómurinn og Guthrie
Kastljósið fjallaði í kvöld um Huntingtonssjúkdóm sem áður var stundum kallaður Huntington´s Chorea eftir dansi nokkrum.
Hinn frægi þjóðlagasöngvari og lagahöfundur Woody Guthrie missti móður sína 15 ára gamall úr sjúkdómnum og greindist síðar með hann. Guthrie lést í október 1967 en hann var fyrirmynd margra bestu þjóðlagasöngvara Bandaríkjanna og heimsins alls. Ekkja Guthries stóð að stofnun Huntington's Disease Society of America (HDSA) sem hefur styrkt rannsóknir og aðstoð við sjúklinga.
Lög Woodys hafa verið flutt af t.d. Bob Dylan, Bruce Springsteen og U2 og áhrif hans eru ómæld á dægurtónlist síðari hluta 20. aldar.
Sonur þeirra hjóna heitir Arlo Guthrie og hefur líka gert garðinn frægan, t.d. með lögunum Alice's Restaurant og Presidential Rag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2007 | 22:37
Merkilegasta pólitíska fréttin
Allar pólitískar fréttir dagsins falla í skuggann af stórfréttinni frá N-Írlandi. Svarnir andstæðingar sambandssinna /kaþólikka og lýðveldissinna /mótmælenda hafa orðið ásáttir um að ræða saman og leita leiða til lausna.
Það er gömul saga og ný að sé farið að blanda trúmálum og pólitík verður til svo eldfim blanda að það endar oftar en ekki með ósköpum. Kannski eru nú kristnir menn á Írlandi farnir að átta sig á því að fleira sameinar þá en aðskilur. Og svo er bara að vona að krististarnir í báðum herbúðum taki sig ekki til og reyni að eyðileggja þann vott að sáttum sem þarna er að verða til.
![]() |
Blair: Sögulegt samkomulag á Norður-Írlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2007 | 12:59
Ferð niður í kolanámurnar í Vorkúta í Síberíu
Nú þegar fréttir berast af skelfilegu kolanámuslysi í Síberu rifjast upp fyrir mér ,svaðilför´niður í kolanámurnar í Vorkúta í Komi-lýðveldinu í norðvesturhluta Síberíu í mars 1991. Þar á túndrunni bjó enginn þegar vinnslan hófst en 2002 bjuggu þar um 85.000 manns.
Ég var á ferð á þessum slóðum með þremur íslenskum afbragðsunglingum ásamt hópum frá mörgum öðrum löndum sem eiga land að norðurheimskautsbaug. Tilefnið var hátíðin Æskan í norðri í Vorkúta og Salekhard.
Við fararstjórarnir vorum að sögn fyrstu Vesturlandabúarnir sem fengu að heimsækja þessar auðugu námur sem voru þrælabúðir í gúlaginu á sínum tíma. Farið var niður námustokkinn í opinni lyftu, fyrstu göngin voru stór eins og jarðlestastöð en svo þrengdust þau smám saman. Að lokum vorum við sendir inn í þröng göng við hlið færibandsgröfu sem djöflaðist í kolaæð. Loftið var ekki kræsilegt en við útlendingarnir bárum höfuð hátt og þóttumst hvergi bangnir. Að lokum var gengið til baka og farið upp á yfirborðið með færibandi.
Ekki öfundaði ég námamennina af sínum aðstæðum en víst er að við fengum bara að sjá það sem best var og öruggast. Það var skrýtin tilfinning að vita af mörg hundruð metra jarðlagi fyrir ofan sig. Og ég veit það nú að óvíða er meira metangas í rússneskum kolanámum en einmitt þar.
Að ferðalokum var slegið upp veislu með rússnesku gufubaði, sardínum og svínakótelettum og ókjörunum öllum af vodka en það er önnur saga.
Dægurmál | Breytt 21.3.2007 kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.3.2007 | 19:47
Jeppar og karlmennska
Ýmsir líta á jeppa sem tákn karlmennskunnar. Á norsku eru jeppar oft kallaðir «penisforlenger» og í Bandaríkjunum er t.d. sagt: «The Hummer is a major penis extention».
Allar tilraunir til að þýða þetta hugtak yfir á íslensku hafa verið hálfmisheppnaðar en nú er óvænt komið fram á sjónarsviðið heiti á heimasíðu sem leysir þennan vanda. Heimasíðan heitir jeppar.is en með því að sleppa punktinum er komin frábær þýðing á hugtakinu «penis extention», jepparis.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2007 | 14:29
Hún Bergþóra hefur kvatt
Það er eftirsjá að Bergþóru Árnadóttur. Hún setti á níunda áratug mikinn svip á þann tónlistargeira sem stundum er kenndur við þjóðlög og átti ég þá töluverð samskipti við hana, mest á vegum Vísnavina (eða «»Visne venner» eins stundum var sagt). Þar var oftast kátt á hjalla.
Eftirminnileg er sameiginleg ferð okkar í Hrím og Bergþóru til Óslóar og Gautaborgar árið 1983 þar sem við spiluðum á samkomum Íslendinga. Hrím spilaði sín írsku lög og heimabruggað efni en Bergþóra kynnti nýju plötuna sína. Í hverri nýrri kynningu var tekið fram hvar í röðinni á hlið 1 eða 2 lagið væri!
Á skemmtuninni í Ósló voru góð ráð dýr þegar okkar leik var lokið, engin danshljómsveit og eitthvert vesen með diskótekið. En Guðmundur allsherjarreddari Íslendingafélagsins skaffaði bara trommusett í snatri og svo var slegið upp íslensku sveitaballi. Á eftir lentum við í partíi hjá Möllu systur og hún minnist þess stundum að það síðasta sem hún sá til okkar þegar við fórum var Bergþóra komin langleiðina upp í ljósastaur að sýna klifurfimina.
Samskiptin minnkuðu þegar Bergþóra flutti til Danmerkur en það var gaman að ná smávegis tölvusambandi við hana í fyrra og koma henni í samband við Hilmar vin minn sem líka tekst á við þann drýsil sem að lokum rændi okkur Bergþóru.
Minningin lifir.
![]() |
Bergþóra Árnadóttir látin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2007 | 14:13
Eru þá allir sekir?
Flestum mun kunnugt um að Davíð Oddsson getur verið manna skemmtilegastur þegar sá gállinn er á honum. Sama er hvort um er að ræða opinber mannamót eða einkasamkomur, þar er Davíð yfirleitt hrókur alls fagnaðar og það svo að allir geta notið þess, jafnvel hans svörnustu andstæðingar í pólitík.
En nú er það allt í einu orðið grunsamlegt í augum Jónínu Ben. að Hreinn Loftsson og Jón Ásgeir komu hlæjandi af fundi Davíðs.
Það er smátt sem hundstungan finnur ekki.
![]() |
Sagðist hafa heyrt að Baugur ætti að borga bátinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)