Hætta nú hönnunarþjófnaðir?

Loksins tekur íslenskur hönnuður af skarið og neitar að stela hugmyndum annarra.
Það er mikill plagsiður ýmissa, og þá kannski einna helst hönnuða í slakari kantinum, að taka bara hugmyndir annarra og gera að sínum. Þetta á bæði við í saumaskap og t.d. í keramik þar sem fólk gengur svo langt að fara með málband og mæla muni listafólks og herma svo eftir þeim til að selja í sjoppum.
Ekki er langt síðan eitthvert dagblaðið flaggaði sérstaklega ungri konu sem sprangaði um í eftirlíkingu af módelkjól sem hún hafði látið sauma í Austur-Asíu. Það er óneitanlega svolítið sérstakt að sjá fólk hreykja sér af þjófstolnu góssi.
mbl.is Íslenskur hönnuður beðinn að stela danskri glæpapeysu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sem vinsemdin ríkir

Hér er svo listi yfir þau tíu lönd þar sem mest vinsemd ríkir í garð ferðafólks, að mati Lonely Planet:

  1. Írland
  2. Bandaríkin
  3. Malaví
  4. Skotland
  5. Fiji-eyjar
  6. Indónesía
  7. Víetnam
  8. Taíland
  9. Samóaeyjar

10. Tyrkland


Eignaskiptatrygging er nauðsyn

Stöðugt berast fréttir af fólki sem hefur keypt fasteignir í verra ástandi en gert var ráð fyrir. Skoðunarskylda kaupenda er að vísu rík rík en er hægt að ætlast til þess að þeir sjái galla sem koma ekki í ljós nema húsið sé tekið í sundur að meira eða minna leyti?

Danir hafa töluverða reynslu af eignaskiptatryggingum. Þær eru teknar í kjölfar lögbundinnar ástandsskýrslu sem á að lýsa eigninni eins og hún er. Þótt skýrslan sé fín er ekki þar með sagt að fasteignin sé gallalaus. Fólk er þá tryggt gegn skemmdum og göllum sem eru fram yfir það sem eðlilegt má teljast miðað við aldur eignar. Gallinn þarf að uppgötvast á tryggingatímabilinu en þó þannig að hann hafi verið til staðar við kaupin en ekki uppgötvast við gerð ástandsskýrslu. Tryggingin nær ekki til eðlilegs slits. Í löggjöf er að finna lágmarkskröfur til skilmála tryggingarinnar.

Seljandi getur borið ábyrgð á göllum fasteignar í allt að 20 ár eftir sölu svo það er líka hagkvæmt fyrir hann að hafa trygginguna.

Kvörtunum yfir göllum á fasteignum hefur fjölgað um nær 50% á 4 árum í Danmörku og um fimmta hver kvörtun leiðir til þess að kaupandi fær bætur vegna galla í eignum.

Er ekki kominn tími til þess að svipað tryggingaform sé tekið upp hér á landi?


Nafnlaus og nöturleg leyndarmál

Hreinn Friðfinnsson auglýsir nú enn á ný eftir leyndarmálum sem fólk á að skrifa honum. Auglýsing hans minnir mig á svipaða hugmynd, PostSecret. Það er vefsetur þar sem fólk sendir inn nafnlaus póstkort með hugsunum sínum, sem ekki eru allar jafn huggulegar en kannski eru þær sannar vegna þess að fólk þarf ekki að standa fyrir máli sínu undir nafni. Hér eru þrjú nöturleg dæmi, lauslega snarað:

,,Tveggja ára dóttir mín líkir eftir hljóðunum í mér þegar ég æli öllu sem ég læt ofan í mig."

 ,,Kona besta vinar míns er að deyja úr krabbameini. Ég vildi óska að það væri konan mín."

,,Mér var kynferðislega misþyrmt í æsku en ég nota það ekki sem afsökun fyrir að misþyrma börnum sem fullorðinn."

 

 

 


Laug á Torfnesi - var það ráðherra?

Í Mogganum í dag er yndislega tvíræð fyrirsögn sem gæti verið tekin beint úr grimmilegri stjórnmálabaráttu einhverra kosninganna: Laug á Torfnesi !

Klaufagangur í Kastljósi

Í gærkvöldi var sýnt alveg einstaklega vandræðalegt dæmi um það þegar sjónvarpsatriði er ekki hugsað í heild. Enskur töframaður sýndi listir sínar með spil á grænu borði en myndataka var þannig að skjátextarnir, sem fyrir lá að hlytu að fylgja útsendingunni, gengu beint yfir borðið svo galdrarnir sáust nær alls ekki. Það er með ólíkindum að engum skyldi detta í hug að hafa sjónarhornið aðeins neðar (eða víðar) svo hægt væri að koma einni eða tveimur textalínum fyrir neðan borðplötunnar.

10 bestu eyjar heims

Hér er listi yfir 10 bestu eyjar heims til að heimsækja að mati National Geographic Traveler:

1. Færeyjar
2. Azoreyjar, Portúgal
3. Lofoten, Noregi
4. Hjaltlandseyjar, Skotlandi
5. Chiloe, Chile
6. Skye, Skotlandi (Talisker-viskí)
7. Kengúrueyja, Ástralíu
8. Mackinac-eyja, Michigan í Bandaríkjunum
9. Ísland
10. Molokai, Hawaii

Bornholm er í 18. sæti.


Brask í Kaupmannahöfn

Í Mogganum í dag er heilsíðuauglýsing um íbúðir án íbúðarskyldu í Kaupmannahöfn sú skylda gerir fólki mjög erfitt fyrir að kaupa húsnæði í þeirri borg án þess að ætla að vera þar fastbúandi. Þetta verkefni er hið besta mál en það skemmtilega (frá íslenskum sjónarhóli séð) er að erlendi umsjónarmaðurinn heitir Mogens Brask. Errm

Leyfið gestunum að tala!

Rás 2 fékk öðlinginn Braga Kristjónsson í heimsókn í morgun. Hann hefur frá mörgu að segja en alltaf þegar ræða hans dýpkaði og hann fjallaði t.d. um eirðarleysi nútímans, innihaldsleysi fjölmiðla og metnaðarleysi var gripið fram í fyrir honum... ,,Segir Bragi og fær sér í nefið" og svo framvegis.
    Má ekki ræða neitt sem skiptir máli i morgunútvarpi? Og hressstressið var svo mikið að fullyrt var að lokum að hann yrði í Silfri Egils í kvöld. Bragi reyndi að malda i móinn en þá var gripið fram í fyrir honum: ,,Þú verður þar víst!"

Bragi verður í Kiljunni i kvöld. 


Staksteinar...

Staksteinar er undarleg samsetning biturleika og hæðni sem stundum á skemmtilega spretti en er svo blindaður pólitískum flokkslit að dálkurinn á stundum erfitt með sig. Nú er hann t.d. búinn að finna hinn eina og sanna sökudólg í REI-klúðrinu, Svandísi Svavarsdóttur!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband