Sir Willard White syngur Paul Robeson

Þegar foreldrar mínir keyptu sinn fyrsta grammófón um 1958 var til plata með Paul Robeson á heimilinu. Smápattinn heillaðist af þessum drynjandi og tilfinningaríka bassa þótt líklega hafi ég nú ekki alveg áttað mig á öllu því sem að baki bjó. Í kvöld gafst svo tækifæri til að endurnýja kynnin við þennan snilling og hvílíkir tónleikar. Sir Willard White skilaði lögunum af snilld og túlkaði þau mjög tignarlega og persónulega. Það lá við að maður táraðist við að hlusta á "Ol' Man River" í lokin.
Og meðspilararnir voru ekki af verri endanum. Píanóleikarinn Neal Thornton er þekktur upptökustjóri og píanóleikari (og skemmtilega svipaður Valla í Fræbblunum að yfirbragði) og Richard Bolton var alveg afbrags gítarleikari sem hafði bæði blús og jass vel á valdi sínu. Það var hálf ankannalegt að lesa í blöðunum að með Sir Willard kæmu ,,píanóleikari og gítarleikari", sjálfsagt er að láta vita þegar svo góðir listamenn koma á klakann.
Tónleikarnir verða sendir út á Rás 1 fimmtudaginn 1. maí sem er mjög viðeigandi dagur til að minnast baráttumannsins Pauls Robesons. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband