22.2.2008 | 22:06
Dagblöðin og Netið
Dagblöðin eru oft nísk á að leyfa hverjum sem er að skoða efni sitt og margt er bara í boði fyrir áskrifendur.
Á þvælingi mínum um netheima rakst ég nýverið á vefsetur danska blaðsins Information sem þar í landi þykir nú fremur vinstrisinnað. Blaðið hefur sérstakan fréttavef en vísar einnig oft til greina sem birtast í prentuðu útgáfunni og eru því ekki aðgengilegar á Netinu - strax. En það er ástæðulaust að örvænta, blaðið opnar fyrir allar fréttir og greinar sólarhring eftir að þær birtast á prenti. Þá er það eintak hvort sem er hætt að seljast því ekkert er eldra en dagblað frá í gær þótt sumar greinar geti verið áhugaverðar. Þetta er til fyrirmyndar.
Ég bíð spenntur eftir að opnað verði fyrir grein um Åsne Seierstad og bók hennar ,,Engilinn í Grosní" sem hef nýlega lesið. Enn einu sinni virðist hún verða fyrir gagnrýni um meðferð heimilda sinna og heimildamanna. Ég ráðlegg fólki engu að síður að lesa bókina, hún gefur góða mynd af landi sem lagt hefur verið í rúst í stríði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.