Naglar og pólitískar skoðanir

Ég velti því stundum fyrir mér hvaða munur sé á þeim sem setja nagla undir bílana sína og okkur hinum. Er það köld skynsemi eða ástæðulaus óöryggiskennd að nota nagla? Erum við þessir naglalausu fyrirhyggjulausir kæruleysispúkar eða bara menn sem kunna vetrarakstur?

Það væri nú svolítið gaman, næst þegar Gallup eða aðrir stórir fyrirspyrjendur ryðja sínum spurningavögnum yfir þjóðina, að fá spurningu um naglanotkun samtímis og spurt er hvaða flokk menn kjósa. Niðurstaðan gæti komið á óvart!


mbl.is 38% bifreiða á negldum hjólbörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Í hitteðfyrra keyrði ég allan veturinn á sléttum sumarhjólbörðum. Í fyrrahaust ætlaði ég að vera voða fyrirhyggjusöm og lét skella nagladekkjunum undir í fyrstu snjóum. Sem sýndu sig síðan að vera nánast eini snjór í fyrra, síðan keyrði ég allan veturinn með samviskubit á nagladekkjum. Nú ætla ég að aka á sumardekkjunum mínum þangað til snjórinn er orðinn hvað, eitthvað, sem ekki eru líkur á að verði með sama áframhaldi. Ég vil nefnilega getað skutlað foreldrum og RK-vinum þangað sem þau vilja fara, annars tæki ég bara strætó. Annars taka þau gömlu oft leigubíl ef hálka er. Ég er nefnilega svo skíthrædd við hálku. Besta ráðið finnst mér að hugsa mér bílinn sem sleða, þá er ég rólegri í beygjum og að stoppa, bara rólega. Verst með brekkur í hálku og húsið sem ég bý í stendur nefnilega í brekku, betra að leggja niður í móti. Fyrirgefðu mér svo að hugsa svona upphátt hérna, Matti minn. Nú er ég að fara að sofa og svo að jólast á morgun, sýnist allir orðnir paff í bili í skóla-kirkju-umræðunni.

Greta Björg Úlfsdóttir, 10.12.2007 kl. 22:55

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sko...  nú vil ég leggja orð í belg.

Um daginn þurfti ég að gefa frá mér ferð sem ökuleiðsögumaður af því ég var ennþá á sumardekkjum og færð á Gullhringsslóðum ekki með besta móti. Einmitt ástand þar sem vanbúnir bílar geta verið til vandræða og sjálfum sér og öðrum hættulegir. Þarna missti ég fínar aukatekjur fyrir þá sök að vera sein að skipta um dekk.

Ég þurfti að fá mér ný dekk því engin átti ég utan slétt sumardekkin. Lengi vel var ég að sveiflast milli þess hvort ég ætti að fá mér heilsárs- eða kornuð- eða önnur umhverfisvæn dekk, því ég vil gjarnan vera umhverfisvæn ef þess gerist nokkur kostur. Ég las alls konar efni, með og á móti, og skipti um skoðun á nokkurra klukkustunda fresti.

Svo var ekki til setunnar boðið og ég fór á dekkjaverkstæði með það fyrir augum að fá mér gróf heilsársdekk, ónegld. Var á þeirri skoðun þá stundina. Ég lenti á löngu spjalli við manninn á dekkjaverkstæðinu, sagði honum frá vandræðum mínum við valið og hann lagði fyrir mig nokkrar spurningar sem ég svaraði eftir bestu getu. Niðurstaðan var sú að ég keyrði út á negldum dekkjum.

Til að geta sinnt ökuleiðsögn á bílnum mínum á veturna verð ég að vera klár í flestar aðstæður, meðal annars ísingu og hálku. Sem dæmi má nefna að ég hef oft farið í norðurljósaferðir að kvöldi til og fram eftir nóttu jafnvel... allar götur í Reykjavík auðar, snjó- og hálkulausar, en glerhálka á vegunum í kring um borgina, þangað sem maður fer með erlendu ferðamennina í leit að norðurljósum. Það munar ótrúlega mikið um hverja 100 metra hæð á vegunum. Undir slíkum kringumstæðum kemur færni í akstri málinu ekkert við, það eru dekkin sem skipta máli og eigið öryggi, farþeganna og annarra vegfarenda verður að ganga fyrir. Svo einfalt er það.

Á ferðum mínum um Strandir í sumar lenti ég á kaffispjalli með heimamönnum og vetrarfærðin kom til tals. Ég spurði um dekkjamálin og þau sögðu að það þýddi ekkert að reyna að fara á milli staða nema vera á vel negldum dekkjum. Þar er reyndar ekki malbikinu fyrir að fara til að spæna upp og valda svifryki, en þau voru ekki í neinum vafa um hve miklu öruggari nagladekkin væru við þær aðstæður sem þau búa við á veturna.

Þannig að... þetta snýst ekki bara um pólitík heldur líka um aðstæður hvers og eins.

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.12.2007 kl. 12:44

3 Smámynd: Ár & síð

Menn sem aka um þjóðvegi landsins að vetrarlagi eru auðvitað geggjaðir að vera ekki á nagladekkjum, það þekki ég sem er alinn upp í dreifbýli. Mitt þrönga sjónarhorn  snerist um fólk eins og mig og obbann af höfuðborgarbúum sem sjaldan eða aldrei fara út fyrir borgina að vetrarlagi.

Ár & síð, 11.12.2007 kl. 14:20

4 Smámynd: Ár & síð

Ég gleymdi að geta þess að það er náttúrulega líka geggjun að vera ekki á góðum vetrardekkjum að vetri til en ég hef ekið án nagla í 13 ár og aldrei lent í vanda hér innanbæjar af þeim sökum.

Ár & síð, 11.12.2007 kl. 14:32

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Matti, vissirðu að hún Lára Hanna er dóttir Gullu í "okkar bekk"?

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.12.2007 kl. 00:31

6 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Eða er það ekki rétt hjá, mér, Lára Hanna? Varla eruð þið margar alnöfnur með þetta nafn?

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.12.2007 kl. 00:32

7 Smámynd: Ár & síð

Er þetta ekki einhver misskilningur, Gréta? Lára Hanna er náttúrulega ung og glæsileg kona en ég sé hana einhvern veginn ekki fyrir mér sem jafnöldru dóttur minnar.

Ár & síð, 12.12.2007 kl. 23:09

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Eldri sonur minn verður hálf-fertugur á næstu dögum,...sem sagt fertugur eftir 5 ár...

Sá yngri verður þrítugur á næsta ári. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.12.2007 kl. 15:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband