4.10.2007 | 17:56
Stórkostleg þjóðleg tónlist frá Kína
Ég varð þeirrar ánægju að njótandi í gærkvöldi að sitja tónleika þjóðlagahljómsveitar Söngleikja- og dansstofnunar Wuhan-borgar eins og bandið heitir fullu nafni. Og hafi ég átt von á einhverju í líkingu við kínverskar óperur frá Beijing var það mikill misskilningur. Þarna var hörkuvel samspilandi hljómsveit strengja og blásturshljóðfæra með afar spennandi tónlist af mjög fjölbreyttum toga sem þó var alls ekki erfið eyrum sem vönust eru vestrænum dúr-og-moll-og4/4-takti. Tveir einleikarar á banhu-fiðlur voru hvor öðrum betri og þar naut nákvæmt samspil hljóðfæraleikaranna sín kannski hvað best.
Og inn á milli komu söngvarar sem líka kunnu sitt fag, bæði karlar og konur. Söngkonurnar voru glæsilega klæddar og sumar skreyttar fram yfir það sem við eigum að venjast hér á vaðmálsslóðum.
Hljómsveitin hafði m.a. æft tvö lög eftir Fúsa Halldórs en það var eins og valstakturinn í Dagnýju félli ekki alveg að kínverska léttleikanum. Miklu betur gekk með Á Sprengisandi eftir Kaldalóns sem skemmtilegt stef hafði verið prjónað inn í.
Frú Hong Ying lék frábæran einleik á yangqin-hörpu og konan sem lék á hina hörpuna, og sem ég kann ekki að nefna, sýndi glæsileg tilþrif. Og svo var bjölluspilið líka tignarlegt og spennandi, ekki síst með lipru meðspili sem setti punktinn yfir i-ið.
Í einu orði sagt stórkostlegir tónleikar og allir þeir sem gaman hafa af sígaunatónlist, írskri danstónlist og annarri evrópskri þjóðlegri tónlist ættu ekki að láta tónleika föstudagskvöldsins í Salnum fram hjá sér fara.
Athugasemdir
Þetta hefur verið æðislegt . Kannski maður reyni að kíkja í salinn...
Greta Björg Úlfsdóttir, 5.10.2007 kl. 09:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.