Gömlu góðu Túnfiskarnir

Þegar ég fletti blöðum í morgun blasti við mynd af Túnfiskum, sönghópnum úr Öldutúnsskóla sem söng lögin og ljóðin okkar Gísla inn á plötu. Þarna stóðu þáverandi nemendur, núverandi íslenskufræðingur, formaður, díva, búningahönnuður og allir hinir á andartaki sem verður okkur sem að því stóðu líklega ógleymanlegt.
Það er svo gaman í Öldutúni var aðallagið í skólarevíu ársins. Í útvarpsviðtali sagði Maja að Syndaselurinn væri óður til Hauks. Ég man að ég velti fyrir mér hvort ég ætti að túlka þetta sem svo að um væri að ræða söng til heiðurs skólastjóranum eða hvort einhver hefði verið sendur óður til hans.
Um þær mundir var  Rás 2 á sínum upphafsárum og vinsældalistar valdir á grundvelli innhringinga. Hópur nemenda sat og hringdi eins og berserkir og Túnfiskarnir fóru beint í 10. sætið. Eitthvað hefur þeim Rásar 2 mönnum þó þótt þetta með ólíkindum og við fórum ekki hærra þrátt fyrir stöðugar tilraunir.
Myndin í Fréttablaðinu var tekin í Sjónvarpssal í stuðningsþætti fyrir SÁÁ og ég get fullyrt að enginn af okkar fólki á myndinni hefur lent í neinu rugli, hverju svo sem það er að þakka.
Á útsendingarkvöldinu söfnuðumst við saman og ég sá um að kaupa ósköpin öll af kjúklingabitum, gos og fimm stóra skammta af frönskum en þegar til kom fengum við bara 5 litla. Það skipti þó engu máli, spennan var mikil fyrir útsendinguna og allir voru á nálum.
Um sumarið skemmtu Túnfiskarnir á 17. júní í Reykjavík, bindindismótinu í Galtalæk og víðar. Við Gísli stofnuðum samvinnufélagið Túnfiska til að halda utan um launamálin. Það fyrirtæki er enn við lýði og selur nú gæðaþýðingar um land allt. Stundum kemur fyrir að hringt er og spurt hvort við séum í fiskútflutningi.

Það eru ekki fáar hugsanir sem ein mynd í blaði getur kallað fram. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ásgeirsson

Flott mynd sem rifjar upp góðar minningar.

Fatnaðurinn er stórkostlegur! 

Gísli Ásgeirsson, 29.9.2007 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband