12.8.2007 | 22:28
Forréttindi kennarans
Kennsla er bæði göfugt starf og argasta púl, álag, fögnuður og streita og allt þar á milli. En ein mikilvægustu forréttindi kennara eru þau að horfa á eftir unglingunum sínum út í lífið og svo stundum að hitta þá eða heyra af þeim löngu síðar. Það getur verið örstuttur fundur við rætur Snæfellsjökuls, í erlendri flughöfn eða í grillsjoppu í Keflavík, greinarstúfur í tímariti, frétt í blaði eða blogg.
Það síðasta er reyndar tilefni þessarar færslu því ég hef fylgst með henni Þórdísi Tinnu, ljúfri stúlku sem ég kenndi um hríð. Nú er hún orðin fullorðin kona og móðir sem tekst á við illan vágest og baráttan er tvísýn eins og þeir vita sem fylgst hafa með bloggsíðunni hennar. Þegar ég les póstana hennar rekst ég svo í athugasemdunum á hin og þessi nöfn fyrrum nemenda sem vekja minningar og þeir senda jafnvel kveðjur. Fyrir þessi forréttindi þakka ég, þetta hlýjar gömlum kennara um hjartarætur!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.