Hilmar J. Hauksson – In memoriam

Procol Harum - konsert - 2006 003
«For you will still be here tomorrow, but your friends may not.»

 Við höfðum alltaf ætlað okkur að verða gamlir saman. Og það var alltaf líf og fjör umhverfis Hilmar. Í MH var hann formaður Listafélagsins og keyrði það áfram af krafti. Barmahlíðin var fastur viðkomustaður og svo var farið til Kalla til að læra það sem hann hafði lært hjá gítarkennaranum. Eða í Bólstaðarhlíðina til Gunnars þar sem hlutirnir gengu ekki alltaf hljóðlega fyrir sig.

Eftir stúdentspróf hélt Hilmar til náms í sjávarlíffræði í Bangor í Wales. Í bréfunum frá honum var þó meira rætt um tónlist og leiklist, siglingar og ferðalög.

Við Heidi fluttum út, Hilmar heimsótti okkur í Hróarskeldu 1980 með Tótu og þótti ekki leiðinlegt á festivalinu sem þá var uppfullt af tónlist af öllu tagi, ekki síst þjóðlögum.

Hrím var stofnað haustið 1981 og með Wilmu lékum við um allt og þvældumst til Grænlands, Skotlands og Norðurlandanna. Spilað var af kappi, t.d. 14 sinnum á einni viku á Glasgow Folk Music Festival. Stundum var viskí hóflega haft um hönd en Hilmar lék ótrauður áfram á gítar sinn, flautu, bouzuki, bassa, hljómborð eða nikku. Ferðin til Christiansø við Borgundarhólm var líklega hápunkturinn á þessum ferðum þótt spilamennska fyrir sjö þjóðhöfðingja í flugskýli í Narsarsuaq hafi líka verið sérstök reynsla. Platan okkar hét Möndlur en nafnið var einstaklega misheppnuð þýðing á orðinu “Nuts”.

Sara kom svo í heiminn og breytti að ýmsu leyti lífssýn Hilmars eins og frumburðir gjarnan gera.

Hilmar hvíldi sig á þjóðlögunum og stofnaði Hvísl. Hann hélt áfram að kenna í Fjölbraut í Breiðholti og spila á vetrum en ferðast og spila á sumrum. Svo kom Salóme til sögunnar og gulldrengurinn Haukur Steinn. Salóme kvaddi óvænt en Hilmar lét ekki deigan síga heldur kastaði sér út í uppeldið. Það er ekki einfalt að vera einstætt foreldri í meira en fullu starfi en hverju fær ekki sá áorkað sem ekki hugsar um hindranir heldur lausnir?

Daglegar annir vinsæls kennara og föður voru miklar og það dró úr þeim tíma sem aflögu var fyrir listina en aldrei var hún lögð á ís.

Svo kom fyrsta höggið og kostaði annað nýrað. Staðbundið meinvarp er ekki endalok alls og Hilmar var bjartsýnn. Það kom þó í ljós að ekki hafði tekist að vinna bug á vágestinum. Lungnaaðgerðin í fyrra var mikið áfall en samt fór Hilmar í siglingu um Eyjahafið. Sumarið var erfitt en við náðum þó að drífa okkur saman til Danmerkur í ágúst að sjá og heyra Procol Harum með sinfóníuhljómsveit og kór. Samt var augljóst að kraftarnir voru farnir að þverra. Nýtt lyf vakti bjartsýni um haustið og Hilmar kenndi á vorönn í FB en í maílok kom lokahöggið. Með hverjum deginum var meira af honum dregið og loks kom svo að ekki varð lengur við neitt ráðið. Síðustu dagarnir voru erfiðir, bæði Hilmari og ástvinum hans sem gáfu honum það eina sem þeir gátu boðið, tíma sinn.

Við ákváðum í haust að fljúga til Billund nú í sumar og heimsækja Bergþóru á Jótlandi en nú eru þau bæði horfin okkur. Við Hilmar höfðum alltaf ætlað okkur að verða gamlir saman en það verður víst ekki úr þessu.

Harmur móður hans Svövu er mikill. Hún kveður ástkæran son sinn og Haukur Steinn og Sara sjá að baki góðum föður. Þau fá, ásamt Moniku, systkinum Hilmars og öðrum ástvinum, mínar innilegustu samúðarkveðjur á þessari kveðjustund. En minningin lifir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband