Ferð niður í kolanámurnar í Vorkúta í Síberíu

Nú þegar fréttir berast af skelfilegu kolanámuslysi í Síberu rifjast upp fyrir mér ,svaðilför´niður í kolanámurnar í Vorkúta í Komi-lýðveldinu í norðvesturhluta Síberíu í mars 1991. Þar á túndrunni bjó enginn þegar vinnslan hófst en 2002 bjuggu þar um 85.000 manns.
    Ég var á ferð á þessum slóðum með þremur íslenskum afbragðsunglingum ásamt hópum frá mörgum öðrum löndum sem eiga land að norðurheimskautsbaug. Tilefnið var hátíðin Æskan í norðri í Vorkúta og Salekhard.
    Við fararstjórarnir vorum að sögn fyrstu Vesturlandabúarnir sem fengu að heimsækja þessar auðugu námur sem voru þrælabúðir í gúlaginu á sínum tíma. Farið var niður námustokkinn í opinni lyftu, fyrstu göngin voru stór eins og jarðlestastöð en svo þrengdust þau smám saman. Að lokum vorum við sendir inn í þröng göng við hlið færibandsgröfu sem djöflaðist í kolaæð. Loftið var ekki kræsilegt en við útlendingarnir bárum höfuð hátt og þóttumst hvergi bangnir. Að lokum var gengið til baka og farið upp á yfirborðið með færibandi.
    Ekki öfundaði ég námamennina af sínum aðstæðum en víst er að við fengum bara að sjá það sem best var og öruggast. Það var skrýtin tilfinning að vita af mörg hundruð metra jarðlagi fyrir ofan sig. Og ég veit það nú að óvíða er meira metangas í rússneskum kolanámum en einmitt þar.
    Að ferðalokum var slegið upp veislu með rússnesku gufubaði, sardínum og svínakótelettum og ókjörunum öllum af vodka en það er önnur saga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Góð myndræn ferðasaga, það dimmdi í hugskoti við lesturinn og gott ef ekki fannst fnykur af eitruðum lofttegundum hérna í stofunni heima... Hef grun um að þessi ókjör af vodka hafi verið á góðum kjörum ;c)

Jón Þór Bjarnason, 20.3.2007 kl. 14:22

2 Smámynd: Ár & síð

Þetta var veisla í boði námustjórans, haldin í gufubaðinu þar sem ég var liggur mér við að segja kaghýddur af rússneskum rumi með hrísi eins og venja er til í gufu á þeim slóðum. Feitmetið gerði 12 manns í handklæðum einum fata kleift að drekka 10 1/2 líters vodkaflöskur, allt óblandað í snöfsum sem teknir voru í einum gúlsopa en ekki bitnir í tvennt. Eftirminnilegt, það sem maður man af því

Ár & síð, 20.3.2007 kl. 19:26

3 Smámynd: Gunnar Freyr Steinsson

Hmmm... svosum skiljanlegt að við afbragðsunglingarnir höfum ekki fengið að fara með.

Gunnar Freyr Steinsson, 21.3.2007 kl. 10:30

4 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Gat ekki kommenterað neðar á síðunni - er Hilmar veikur?

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 23.3.2007 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband