Hún Bergþóra hefur kvatt

Það er eftirsjá að Bergþóru Árnadóttur. Hún setti á níunda áratug mikinn svip á þann tónlistargeira sem stundum er kenndur við þjóðlög og átti ég þá töluverð samskipti við hana, mest á vegum Vísnavina (eða «»Visne venner» eins stundum var sagt). Þar var oftast kátt á hjalla.
    Eftirminnileg er sameiginleg ferð okkar í Hrím og Bergþóru til Óslóar og Gautaborgar árið 1983 þar sem við spiluðum á samkomum Íslendinga. Hrím spilaði sín írsku lög og heimabruggað efni en Bergþóra kynnti nýju plötuna sína. Í hverri nýrri kynningu var tekið fram hvar í röðinni á hlið 1 eða 2 lagið væri!
    Á skemmtuninni í Ósló voru góð ráð dýr þegar okkar leik var lokið, engin danshljómsveit og eitthvert vesen með diskótekið. En Guðmundur allsherjarreddari Íslendingafélagsins skaffaði bara trommusett í snatri og svo var slegið upp íslensku sveitaballi. Á eftir lentum við í partíi hjá Möllu systur og hún minnist þess stundum að það síðasta sem hún sá til okkar þegar við fórum var Bergþóra komin langleiðina upp í ljósastaur að sýna klifurfimina.
    Samskiptin minnkuðu þegar Bergþóra flutti til Danmerkur en það var gaman að ná smávegis tölvusambandi við hana í fyrra og koma henni í samband við Hilmar vin minn sem líka tekst á við þann drýsil sem að lokum rændi okkur Bergþóru.

Minningin lifir. 


mbl.is Bergþóra Árnadóttir látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ár & síð

Einmitt! Þegar menn ræddu um að einhver væri sérlega mikill trúmaður sagði ég stundum: Komdu með mér austur og ég skal sko sýna þér trúmann!

Pabbi hafði líka mjög gaman af því að fá eitt sinn jólakort frá nemanda sínum með utanáskriftinni:
Til Trúðmanns.

Ár & síð, 16.3.2007 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband