21.2.2007 | 22:25
Byggt til framtíðar?
Stjórnmálamenn mæra stundum hlutverk sitt og mikilvægi þess að vinna með framtíðarhagsmuni í huga. Þeim hættir þó jafnframt til þess að hunsa framtíðarhugmyndir fyrirrennara sinna og jafnvel að vinna beinlínis gegn þeim í skammsýni sinni.
Gott dæmi um þetta er sala Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík. Húsið er auðvitað einstakt að allri smíð en héldu menn virkilega að Heilsuverndarstöðinni hefði verið valinn staður nálægt miðborginni og svo að segja við hlið Landspítalans af hreinni tilviljun? Nei, auðvitað ekki. Að baki lá framsýn og stórbrotin hugmynd um samstarf þótt síðar kæmi reyndar Borgarspítalinn á öðrum stað og ný viðmið.
Skammsýnir baunateljarar ákváðu svo að selja húsið og láta breyta því í viðskiptahúsnæði af einhverju tagi en þó án þess að hafa hugmynd um til hvers það yrði notað. Og nú á að eyðileggja það með viðbyggingu, svipað og gert var við bæði gamla Landsbankahúsið og Útvegsbankahúsið í miðborginni.
Ætli stóreflis hótel á þessum þrönga reit stuðli nú beinlínis að fjölgun bílastæða fyrir þá sem erindi eiga á svæðið? Og hvað segja íbúarnir? Nei, það veit enginn því valdið spyr ekki um það á meðan enginn háttsettur áhrifamaður býr þar í götunni.
Athugasemdir
...og þetta er því miður aðeins eitt dæmi af mörgum um ringulreið og óstjórn...
Greta Björg Úlfsdóttir, 21.2.2007 kl. 23:49
Gott þú skulir vekja athygli á þessu. Ég er hrædd um að Einar Sveinsson arkitekt og Ásmundur Sveinsson myndhöggvari séu að snúa sér við í gröfinni. En þetta hús er hönnunarverk þeirra og ein af perlum Reykjavíkur. Það er eins og við í dag kunnum ekkert að meta þá framsýni og hugsjón sem einkenna t.d. byggingu þessa húss.
Hvað varð af hugsjónaandanum sem hélt áfram í 67 kynslóðinni - græna byltingin og hugmyndir um húsafriðun?
Sjaldan launar kálfur ofeldið
Guttormur, 23.2.2007 kl. 22:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.