Kjarvalsstaðir - hryllingur og list

Um þessar mundir eru athyglisverðar sýningar í gangi á Kjarvalsstöðum.

Rúrí á mikinn senógrafískan foss sem kemur afar vel út. Ólafur Elíasson höfuðsnillingur á svo foss utandyra sem líta má á sem myndlíkingu af íslenska efnahagskerfinu.  Þar rennur vatn upp í móti og öllu battaríinu þarf að halda uppi með digurri burðargrind og rörum og tengjum sem búa til blekkinguna. Allt leikur á reiðiskjálfi og töluvert sullast út fyrir. Þegar vel er að gáð liggur svo hundur inn í hús eftir utanaðkomandi aflgjafa. Skemmtilega tvíræð innsetning.

Fyrir miðju miðrými austursals er stórkostleg ljósmynd af Kjarval þar sem hann stendur eins og fornkappi sem tekst á við óvin – nema hvað hann er að takast á við list sína. Í sama rými er svo gluggamyndin skemmtilega sem verður því betri sem maður fer fjær henni.

Á sínum bestu stundum var Kjarval einstakur maður. Hann bjó reyndar í mörg sumur hjá afa á Strönd til að mála Heklu og teiknaði m.a. mynd af móður minni barnungri sem engli. Hún varð svo móðguð yfir vængjunum að hún reif myndina og sér eftir því æ síðan.

En ég kemst ekki hjá því að tala um hryllinginn líka. Hvenær ætla menn eiginlega að taka á þessu stórkostlega lýti sem loftið er? Í sýningarsölum á að vera hátt til lofts en þessu hrúgaldi tekst algjörlega að eyðileggja salina í þessu annars ágæta húsi. Synd væri ef það yrði rifið áður en færi gefst á að sjá hvernig salirnir taka sig út án hryllingsins í loftinu. Það er auðvitað barn síns tíma en með nútímatækni og þekkingu á lýsingu er það orðið algjört steinbarn. Ég bendi í allri hæversku á Ljóstæknifélag Íslands en undirritaður hefur þýtt það mörg rit fyrir þá ljúflinga að hann þorir að fullyrða að kunnáttumönnum yrði ekki skotaskuld úr því að lýsa salina eins og best gerist erlendis.

Báknið burt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband