16.2.2007 | 22:18
Spurningalisti fyrir komufarþega?
Nú er mikið rætt um mögulega lögbrjóta sem eru að koma í hvataferð til Íslands. Sumir vilja nú frekar kalla það frumhvataferð. En málið er sem sagt hvort þeir ætli að brjóta lög á Íslandi.
Nú er það svo að lög hafa oft verið brotin á Íslandi og það hafa eflaust líka gert margir af þeim sem gagnrýna komu þessa liðs. Hér er tillaga að spurningalista sem væntanlegir gestir í ,,Landinu helga" gætu þá þurft að svara áður en klámhundunum verður hleypt hingað:
1) Hefur þú komið þér undan greiðslu á (virðisauka)skatti eða hyggstu gera það á meðan þú dvelur hér á landi?
2) Hefur þú ekið drukkin(n), setið í hjá drukknum bílstjóra eða hyggstu gera það á meðan þú dvelur hér á landi?
3) Hefurðu greitt starfsfólki þínu laun undir borðið eða hyggstu gera það á meðan þú dvelur hér á landi?
4) Hefurðu ekið yfir löglegum hámarkshraða eða hyggstu gera það á meðan þú dvelur hér á landi?
5) Hefurðu smyglað áfengi og/eða tóbaki, matvörum eða dönskum pylsum eða hyggstu gera það í ferðinni hingað til lands?
Allt er þetta ólöglegt athæfi og ef rökin um að banna mögulegum lögbrjótum eiga að halda verður bannið að ná til allra, annað væri mismunun og hræsni.
En verði þetta eyðublað lagt fyrir alla Íslendinga á heimleið frá útlöndum, hve mörgum yrði þá meinaður aðgangur að landinu?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.