Færsluflokkur: Ferðalög

Hæsta hótel í heimi?

Á blaðsíðu 3 í 24 stundum dagsins  er heilsíðuauglýsing frá mínum gamla skólabróður Helga Jóhannssyni í Sumarferðum. Þar lofar hann hinu ljúfa lífi á Costa Del Sol á suðausturströnd Spánar með kampavíni í morgunverð (og þá væntanlega hausverk í hádeginuWink ) en það merkilegasta er þó að hann býður til gistingar í hóteli sem hlýtur að vera hið hæsta í heimi. Maður getur nefnilega setið á svölunum og haft útsýni yfir allt Kyrrahafið !!!

Útlendingar & hraðakstur

Væri ekki skynsamlegt að setja upp einhvers konar kerfi með viðvörun við fyrsta hraðakstursbrot ferðamanna hér á landi? Á þessum síðustu tölvutímum getur ekki verið flókið mál að koma upp tölvuskráningarkerfi um það svo þeir sleppi ekki næst, haldi þeir áfram uppteknum hætti.

Þann 4. júlí 1987 var ég á leið með konu og börnum til Lególands á Jótlandi. Veðrið var gott, bíllinn góður, umferð lítil og enginn löggubíll í sjónmáli svo ég ók sem leið lá yfir Sjáland á 140 km hraða, langt yfir 110 km hraðatakmörkunum. Skyndilega ók að hlið mér venjulegur fólksbíll þar sem maður í einkennisskyrtu veifaði STOP-skilti. Bílarnir stönsuðu og til okkar gekk ábúðarfullur laganna vörður. Hann sá sorgar- og skelfingarsvipinn á mér og eiginkonunni og spurði mig um hraðann. Ég játaði náttúrulega allt en reyndi eitthvað að bera í bætifláka með tilvísan til aksturs á þýskum hraðbrautum.  Hann fussaði bara yfir þeirri vörn, leit á börnin í aftursætinu og spurði hvort ég hefði ekki hugsað mér að koma þeim heilum heim. Ég játti því og þá sagði hann mér að aka áfram og halda mig við hámarkshraðann, hann myndi láta vita af mér og með mér yrði fylgst.

Síðan hef ég ekki verið stöðvaður fyrir hraðakstur erlendis þrátt fyrir margar ferðir. Há sekt hefði hins vegar rústað ferðasjóði kennararæfilsins og ég kunni svo sannarlega að meta þessa afgreiðslu málsins.

Reyndar vissi lögreglumaðurinn ekki að sorgarsvipinn á okkur hjónum mátti ekki síst rekja til þess að kvöldið áður höfðum við fengið fregnir af andláti tengdaföður míns.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband