Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

www.folkalley.com

Þjóðlagatónlist á sér marga áhangendur og ég er einn þeirra. Ég hef mjög gaman af því að hlusta á sendingar bandarísku netútvarpsstöðvarinnar FolkAlley sem býður upp gríðarlega fjölbreytt úrval fyrir okkur folkies. Allan sólarhringinn er útsending í gangi með kynnum sem hafa fjölbreyttan smekk fyrir folk og world tónlist. Svo er send út sérstök rás sem kallast Fresh Cuts með öllu því nýjasta úr þessum kima tónslitarinnar. Það áhugaverðasta er þó kannski Open Mic þar sem hlustendur geta sjálfir hlaðið upp sinni eigin tónlist skv. ákveðnum reglum. Hlustendur geta svo ýmist hlustað á lag og lag á síðunni eða sótt tónlistina í sína eigin tölvu. Því til viðbótar er svo ítarleg umfjöllun um ýmsa valda tónlistarmenn alls staðar að.
     Það kostar ekkert að skrá sig á síðuna og ég mæli eindregið með henni fyrir áhugamenn um þjóðlagatónlist.


Útlendingar & hraðakstur

Væri ekki skynsamlegt að setja upp einhvers konar kerfi með viðvörun við fyrsta hraðakstursbrot ferðamanna hér á landi? Á þessum síðustu tölvutímum getur ekki verið flókið mál að koma upp tölvuskráningarkerfi um það svo þeir sleppi ekki næst, haldi þeir áfram uppteknum hætti.

Þann 4. júlí 1987 var ég á leið með konu og börnum til Lególands á Jótlandi. Veðrið var gott, bíllinn góður, umferð lítil og enginn löggubíll í sjónmáli svo ég ók sem leið lá yfir Sjáland á 140 km hraða, langt yfir 110 km hraðatakmörkunum. Skyndilega ók að hlið mér venjulegur fólksbíll þar sem maður í einkennisskyrtu veifaði STOP-skilti. Bílarnir stönsuðu og til okkar gekk ábúðarfullur laganna vörður. Hann sá sorgar- og skelfingarsvipinn á mér og eiginkonunni og spurði mig um hraðann. Ég játaði náttúrulega allt en reyndi eitthvað að bera í bætifláka með tilvísan til aksturs á þýskum hraðbrautum.  Hann fussaði bara yfir þeirri vörn, leit á börnin í aftursætinu og spurði hvort ég hefði ekki hugsað mér að koma þeim heilum heim. Ég játti því og þá sagði hann mér að aka áfram og halda mig við hámarkshraðann, hann myndi láta vita af mér og með mér yrði fylgst.

Síðan hef ég ekki verið stöðvaður fyrir hraðakstur erlendis þrátt fyrir margar ferðir. Há sekt hefði hins vegar rústað ferðasjóði kennararæfilsins og ég kunni svo sannarlega að meta þessa afgreiðslu málsins.

Reyndar vissi lögreglumaðurinn ekki að sorgarsvipinn á okkur hjónum mátti ekki síst rekja til þess að kvöldið áður höfðum við fengið fregnir af andláti tengdaföður míns.

 


Hilmar J. Hauksson – In memoriam

Procol Harum - konsert - 2006 003
«For you will still be here tomorrow, but your friends may not.»

 Við höfðum alltaf ætlað okkur að verða gamlir saman. Og það var alltaf líf og fjör umhverfis Hilmar. Í MH var hann formaður Listafélagsins og keyrði það áfram af krafti. Barmahlíðin var fastur viðkomustaður og svo var farið til Kalla til að læra það sem hann hafði lært hjá gítarkennaranum. Eða í Bólstaðarhlíðina til Gunnars þar sem hlutirnir gengu ekki alltaf hljóðlega fyrir sig.

Eftir stúdentspróf hélt Hilmar til náms í sjávarlíffræði í Bangor í Wales. Í bréfunum frá honum var þó meira rætt um tónlist og leiklist, siglingar og ferðalög.

Við Heidi fluttum út, Hilmar heimsótti okkur í Hróarskeldu 1980 með Tótu og þótti ekki leiðinlegt á festivalinu sem þá var uppfullt af tónlist af öllu tagi, ekki síst þjóðlögum.

Hrím var stofnað haustið 1981 og með Wilmu lékum við um allt og þvældumst til Grænlands, Skotlands og Norðurlandanna. Spilað var af kappi, t.d. 14 sinnum á einni viku á Glasgow Folk Music Festival. Stundum var viskí hóflega haft um hönd en Hilmar lék ótrauður áfram á gítar sinn, flautu, bouzuki, bassa, hljómborð eða nikku. Ferðin til Christiansø við Borgundarhólm var líklega hápunkturinn á þessum ferðum þótt spilamennska fyrir sjö þjóðhöfðingja í flugskýli í Narsarsuaq hafi líka verið sérstök reynsla. Platan okkar hét Möndlur en nafnið var einstaklega misheppnuð þýðing á orðinu “Nuts”.

Sara kom svo í heiminn og breytti að ýmsu leyti lífssýn Hilmars eins og frumburðir gjarnan gera.

Hilmar hvíldi sig á þjóðlögunum og stofnaði Hvísl. Hann hélt áfram að kenna í Fjölbraut í Breiðholti og spila á vetrum en ferðast og spila á sumrum. Svo kom Salóme til sögunnar og gulldrengurinn Haukur Steinn. Salóme kvaddi óvænt en Hilmar lét ekki deigan síga heldur kastaði sér út í uppeldið. Það er ekki einfalt að vera einstætt foreldri í meira en fullu starfi en hverju fær ekki sá áorkað sem ekki hugsar um hindranir heldur lausnir?

Daglegar annir vinsæls kennara og föður voru miklar og það dró úr þeim tíma sem aflögu var fyrir listina en aldrei var hún lögð á ís.

Svo kom fyrsta höggið og kostaði annað nýrað. Staðbundið meinvarp er ekki endalok alls og Hilmar var bjartsýnn. Það kom þó í ljós að ekki hafði tekist að vinna bug á vágestinum. Lungnaaðgerðin í fyrra var mikið áfall en samt fór Hilmar í siglingu um Eyjahafið. Sumarið var erfitt en við náðum þó að drífa okkur saman til Danmerkur í ágúst að sjá og heyra Procol Harum með sinfóníuhljómsveit og kór. Samt var augljóst að kraftarnir voru farnir að þverra. Nýtt lyf vakti bjartsýni um haustið og Hilmar kenndi á vorönn í FB en í maílok kom lokahöggið. Með hverjum deginum var meira af honum dregið og loks kom svo að ekki varð lengur við neitt ráðið. Síðustu dagarnir voru erfiðir, bæði Hilmari og ástvinum hans sem gáfu honum það eina sem þeir gátu boðið, tíma sinn.

Við ákváðum í haust að fljúga til Billund nú í sumar og heimsækja Bergþóru á Jótlandi en nú eru þau bæði horfin okkur. Við Hilmar höfðum alltaf ætlað okkur að verða gamlir saman en það verður víst ekki úr þessu.

Harmur móður hans Svövu er mikill. Hún kveður ástkæran son sinn og Haukur Steinn og Sara sjá að baki góðum föður. Þau fá, ásamt Moniku, systkinum Hilmars og öðrum ástvinum, mínar innilegustu samúðarkveðjur á þessari kveðjustund. En minningin lifir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband