Færsluflokkur: Tónlist

www.folkalley.com

Þjóðlagatónlist á sér marga áhangendur og ég er einn þeirra. Ég hef mjög gaman af því að hlusta á sendingar bandarísku netútvarpsstöðvarinnar FolkAlley sem býður upp gríðarlega fjölbreytt úrval fyrir okkur folkies. Allan sólarhringinn er útsending í gangi með kynnum sem hafa fjölbreyttan smekk fyrir folk og world tónlist. Svo er send út sérstök rás sem kallast Fresh Cuts með öllu því nýjasta úr þessum kima tónslitarinnar. Það áhugaverðasta er þó kannski Open Mic þar sem hlustendur geta sjálfir hlaðið upp sinni eigin tónlist skv. ákveðnum reglum. Hlustendur geta svo ýmist hlustað á lag og lag á síðunni eða sótt tónlistina í sína eigin tölvu. Því til viðbótar er svo ítarleg umfjöllun um ýmsa valda tónlistarmenn alls staðar að.
     Það kostar ekkert að skrá sig á síðuna og ég mæli eindregið með henni fyrir áhugamenn um þjóðlagatónlist.


Lýst eftir blárri bodhran-trommu

Bodhran Á níunda áratug var ég m.a. önnum kafinn við að leika írska og skoska tónlist með Wilmu Young fiðluleikara, ekki síst á Ölkeldunni á 2. hæð að Laugavegi 22. Við höfðum á ferðum okkar keypt forláta írskt bodhrán, trommu sem haldið er lóðréttri og hún slegin með sérstökum kólfi. Tromman var frekar stór og fallega blá með mynd í skinninu og svo hvarf hún hreinlega eitt kvöldið af efstu hæðinni og hefur ekki sést síðan.

Ég var búinn að steingleyma þessu atviki en þegar ég horfði á hana Eyvøru í kvöld og sá snjalla undirleikarann hennar með bodhránið sitt rifjaðist þetta upp fyrir mér og ég ákvað að lýsa eftir gripnum, ef ske kynni að samviskubit væri farið að láta á sér kræla. Trommunni má skila í ganginn að Brautarholti 28, efstu hæð. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband