Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Verslunar-hvað?

Það er svolítið spaugilegt að sitja hérna í Köben og hlusta á íslenskar sjónvarps- og útvarpsfréttir. Það er engu líkara en að fréttaheimurinn íslenski sé hreinlega að fara á límingunum vegna þess að nokkur þúsund manns ætla að tjalda í roki og rigningu. Og svo er sýndar myndir í beinni útsendingu af hálftómum þjóðvegum. Hér eru tugir ef ekki hundruð þúsunda á ferð og flugi, búa á hótelum, gistiheimilum af öllu tagi og á tjaldstæðum í risastórum hópum en ekki sífellt verið að klifa á ekki-fréttum af þessu, það er hreinlega ekkert fréttnæmt við það að fólk fari í frí.

Mikið væri nú gaman ef fjölmiðlar tækju sig til og hættu þessu verslunarmannahelgarstagli og færu að segja áhugaverða fréttir í þess stað. Af nógu er að taka þótt það detti ekki allt niður í hausinn á þeim frá stóru fréttaveitunum. Og þá er ég ekki að tala um stöðugar auglýsingar fréttastofanna á starfsemi strípidansstaða.


Útlendingar & hraðakstur

Væri ekki skynsamlegt að setja upp einhvers konar kerfi með viðvörun við fyrsta hraðakstursbrot ferðamanna hér á landi? Á þessum síðustu tölvutímum getur ekki verið flókið mál að koma upp tölvuskráningarkerfi um það svo þeir sleppi ekki næst, haldi þeir áfram uppteknum hætti.

Þann 4. júlí 1987 var ég á leið með konu og börnum til Lególands á Jótlandi. Veðrið var gott, bíllinn góður, umferð lítil og enginn löggubíll í sjónmáli svo ég ók sem leið lá yfir Sjáland á 140 km hraða, langt yfir 110 km hraðatakmörkunum. Skyndilega ók að hlið mér venjulegur fólksbíll þar sem maður í einkennisskyrtu veifaði STOP-skilti. Bílarnir stönsuðu og til okkar gekk ábúðarfullur laganna vörður. Hann sá sorgar- og skelfingarsvipinn á mér og eiginkonunni og spurði mig um hraðann. Ég játaði náttúrulega allt en reyndi eitthvað að bera í bætifláka með tilvísan til aksturs á þýskum hraðbrautum.  Hann fussaði bara yfir þeirri vörn, leit á börnin í aftursætinu og spurði hvort ég hefði ekki hugsað mér að koma þeim heilum heim. Ég játti því og þá sagði hann mér að aka áfram og halda mig við hámarkshraðann, hann myndi láta vita af mér og með mér yrði fylgst.

Síðan hef ég ekki verið stöðvaður fyrir hraðakstur erlendis þrátt fyrir margar ferðir. Há sekt hefði hins vegar rústað ferðasjóði kennararæfilsins og ég kunni svo sannarlega að meta þessa afgreiðslu málsins.

Reyndar vissi lögreglumaðurinn ekki að sorgarsvipinn á okkur hjónum mátti ekki síst rekja til þess að kvöldið áður höfðum við fengið fregnir af andláti tengdaföður míns.

 


Snjöll hugmynd!

Oft er rætt um dópneyslu á veitingastöðum og veitingamenn kvarta yfir að erfitt sé að takast á við þennan vanda.
Nú hefur veitingamaður í Árósum fundið snjalla lausn, hann varð sér einfaldlega úti um dóphund og hefur hann hjá sér á staðnum. Ástandið hefur batnað mikið á staðnum hans í kjölfar þessa, menn hverfa úr biðröðinni þegar þeir sjá hundinn eða snúa við í dyrunum. Kannski er þetta eitthvað fyrir íslenska veitingamenn?  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband